139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er fjarri mér að halda því fram að kvótakerfið, sem við höfum búið við í sjávarútvegi, sé algjörlega fullkomið kerfi. En það er heldur ekki þannig að ekki hafi verið hlustað á gagnrýnisraddir í gegnum tíðina sem snerta kvótakerfið. Hægt er að draga fram þær staðreyndir að gerðar hafa verið margháttaðar breytingar á hinu svonefnda kvótakerfi í gegnum tíðina. Merkilegasta breytingin frá því það var lögfest 1983 var breytingin á framsalsréttinum, sem var lögfest í tíð vinstri stjórnarinnar frá 1988–1991, undir forustu þáverandi forsætisráðherra, Steingríms Hermannssonar. Ráðherrar í þeirri ríkisstjórn studdu þá breytingu, framsalið sem hefur mjög verið gagnrýnt en hefur að mínu mati skilað íslenskum sjávarútvegi miklum arði. Þess má geta að í þeirri ríkisstjórn sátu, eins og við þekkjum, hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.

Línuívilnun hefur komið inn í kerfið. Við höfum séð uppbyggingu á byggðakvóta. Við höfum séð þátt sem heitir kvótaþing sem var ákveðin málamiðlun og samstarfsflötur sem settur var fram á sínum tíma á milli sjómanna og útvegsmanna. Nú er verið að reyna að koma upp einhverju sem heitir kvótaþing, sem hefur allt aðra mynd en það kvótaþing sem við settum upp á sínum tíma, því að það er í rauninni ríkið eitt sem er á markaðnum, það er ríkið eitt sem mun leigja ef frumvarpið nær fram að ganga. Þannig að margar breytingar hafa verið gerðar. Síðast en ekki síst vil ég nefna þá breytingu sem varð upp úr aldamótunum síðustu þegar veiðileyfagjaldi var komið á. Ég kem inn á það á eftir.

Þrátt fyrir að við séum ekki með gallalaust kerfi, ekki óumdeilt kerfi, er staðreyndin sú að rekstur í íslenskum sjávarútvegi er einn sá hagkvæmasti í heiminum. Það stuðlar að því að nýting sjávarauðlindarinnar og fiskstofnana í hafinu er sjálfbær. Hann er ekki ríkisstyrktur eins og sjávarútvegur alls staðar annars staðar í heiminum. Hann skilar mikilli arðsemi inn í íslenskt samfélag.

Haldin var athyglisverð ráðstefna í Sjóminjasafninu í Reykjavík fyrir ekki löngu um svokallaðan Sjávarklasa. Þar var bent á að við yrðum að líta á sjávarútveginn sem eina heild, ekki eingöngu sem veiðar og vinnslu, heldur líka öll þau 70 sprotafyrirtæki, eða þar um bil, sem hafa skilað mörgum tugum milljarða inn í íslenskt samfélag. Þau tengjast því að við erum að útfæra ýmis tæknifyrirtæki út frá þeirri þekkingu sem við höfum byggt upp á á grundvelli veiða og vinnslu. Það sama gildir um ýmsa aðra starfsemi. Það var athyglisvert að heyra að við værum til að mynda með málmsmíði sem að meiri hluta til byggist á því sem tengist sjávarútveginum.

Það er því þröng nálgun að ræða eingöngu um útgerðina. Ég veit ekki betur en hæstv. ráðherra hafi talað mjög ágætlega fyrir hönd íslensks sjávarútvegs á erlendri grundu, hafi bent á það hversu mikilvægur sjávarútvegurinn sé fyrir efnahag Íslendinga því að hann hefði svo margþætta skírskotun. Við höfum byggt upp sprota- og nýsköpunarfyrirtæki á grundvelli sjávarútvegsins og við verðum að hafa það allt í huga.

Ég talaði um veiðileyfagjaldið. Veiðileyfagjaldið var sett á á sínum tíma eftir að svokölluð auðlindanefnd hafði skilað af sér, en hún starfaði þá undir forustu Jóhannesar Nordals. Af hverju var sú auðlindanefnd sett á laggirnar? Það var út af umræðunni, sem mér finnst stjórnarflokkarnir vera að reyna að endurspegla í dag, en ég taldi að þeirri umræðu hefði að einhverju leyti verið mætt á sínum tíma.

Hvaða fulltrúa skipaði Sjálfstæðisflokkurinn í þá auðlindanefnd, undir forustu þáverandi formanns, Davíðs Oddssonar? Hann skipaði meðal annars mann sem hafði gagnrýnt það mjög að ekki væri greitt fyrir aðgang að auðlindinni. Hann skipaði þáverandi ritstjóra Morgunblaðsins sem var Styrmir Gunnarsson. Það er hægt að lesa um margháttaða gagnrýni Styrmis á kvótakerfið, ekki síst það að menn hefðu ekki greitt fyrir aðgang að auðlindinni. Þetta var tekið upp í auðlindanefndinni árið 2000 og það náðist ákveðin niðurstaða. Ég hef allan tímann verið fylgjandi því að við greiðum auðlindagjald. Það hafa ekkert allir verið fylgjandi því í mínum flokki, en ég tel að meiri hluti míns flokks hafi verið fylgjandi auðlindagjaldi. Það endurspeglast í landsfundarályktun flokksins um miðjan síðasta áratug þar sem kveðið er á um auðlindagjald, það er að greitt verði fyrir aðgang að auðlindum landsins. Þá erum við ekki að tala um að sjávarútvegurinn einn sé tekinn út fyrir sviga, heldur viljum við sjá að greitt verði fyrir það að nýta auðlindirnar í þágu þjóðarinnar, í þágu fólksins og í þágu fyrirtækja.

Það má vel gagnrýna það að hugsanleg útfærsla á veiðileyfagjaldinu eftir þessa skýrslu hafi ekki verið alveg eins og menn óskuðu sér en þetta var ákveðin málamiðlun. Þetta var ákveðin leið til að sýna fram á að við vildum halda í það sem vel er gert í íslenskum sjávarútvegi. Við rekum arðbæran sjávarútveg sem skilar mörgum störfum inn í íslenskt samfélag, inn í háskólasamfélagið, inn í ýmis sprotafyrirtæki, fyrir utan veiðina og vinnsluna um land allt, bæði á landsbyggðinni og ekki síður hér á suðvesturhorninu. Ég mótmæli því sérstaklega að reynt sé að setja þetta fram, eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur gert og eins og ríkisstjórninni er tamt, sem andstæður — suðvesturhornið á móti landsbyggðinni eða öfugt. Þetta er ekki þannig. Höfuðborgarsvæðið á mikilla hagsmuna að gæta í þessu frumvarpi og einnig fyrirtæki í sjávarútvegi og sprotafyrirtæki hér á suðvesturhorninu, hvort sem það er í Reykjavík eða í heimabæ mínum, Hafnarfirði, sem hefur verið útgerðarbær um aldir. Ég vil ekki nálgast þetta mál á þennan hátt.

Ég ætla að falla í þann farveg sem menn hafa verið að druslast eftir og leyfa mér að vera eftiráspekingur. Ef menn hefðu náð samkomulagi, og þar er hægt að gagnrýna alla flokka, um veiðileyfagjaldið og um að setja ákvæði inn í stjórnarskrá um sameign þjóðarinnar á auðlindum værum við nokkurn veginn komin með það sem fólkið var að kalla eftir. Ekki þetta plagg sem við ræðum núna. Ég held að sáttin felist í því, og það er svo stutt á milli manna þegar kemur að þessu, að setja auðlindaákvæðið í stjórnarskrá. Ég vil benda á að við sjálfstæðismenn höfum gert tilraun til þess. Ég bendi þar á tillögu okkar sjálfstæðismanna, í samvinnu við Framsóknarflokkinn árið 2007, þegar formaður flokksins, Geir H. Haarde, setti fram ákveðna tillögu til að koma inn ákvæði um nákvæmlega þetta atriði í stjórnarskrá.

Ég tel að þetta hefði getað verið ákveðin lending. Ég hefði viljað sjá forustumann ríkisstjórnarinnar — og því miður er hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson ekki forustumaður ríkisstjórnarinnar, ég veit að hann hefur skilning á þessu. Hann hugsar um utanríkispólitíska hagsmuni okkar Íslendinga og viðskiptalega hagsmuni og veit að það þarf að ná sátt um sjávarútveginn. Það er svo örstutt í að sú sátt náist. En forsætisráðherra, með stuðningi Vinstri grænna, er haldin einhverri meinloku. Meinlokan birtist trekk í trekk í ræðum sem reyndar eru ekki haldnar hér í þinginu. Forsætisráðherra treystir sér ekki í umræðuna hér, en við fáum að lesa um skoðun hennar á sjávarútveginum, á útgerðarmönnum og á stjórnarandstöðunni í fjölmiðlum og fylgjast þannig með því hver skoðun hennar er.

Ég harma það að sífellt sé verið að reyna að draga upp þessar andstæður, ekki bara landsbyggðin og suðvesturhornið heldur er líka verið að tala niður heilu starfsstéttirnar sem tengdar eru sjávarútveginum. Það er líka hægt að nefna aðrar starfsstéttir sem aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar gera lítið úr, það virðist til dæmis vera mjög vel fallið til vinsælda að tala niður stétt eins og tannlækna. Það má alltaf hnýta í ákveðnar stéttir á þingi í stað þess að virða það sem vel er gert og reyna að stuðla að því að við komum okkur upp úr þessum hjólförum frekar en að vera alltaf með endalausa neikvæðni í garð ákveðinna atvinnugreina. Eins og ég vil undirstrika eru ákveðnar staðreyndir fyrirliggjandi varðandi íslenskan sjávarútveg. Þær eru fyrst og fremst þær að við erum með sjálfbæran sjávarútveg sem hefur verið rekinn á hagkvæman hátt og er ekki ríkisstyrktur. Hann er fyrirmynd annarra þjóða og meðal annars fyrirmynd að hugsanlegum breytingum á regluverki Evrópusambandsins á næstu missirum. Við skulum vona það alla vega.

Með umræddu frumvarpi, sem var lagt fram í algjörri ósátt, er verið að hverfa aftur á bak. Ég skrifaði grein á sínum tíma þar sem ég spurði: Er sýndarmennska um hina svokölluðu sáttanefnd í sjávarútvegi? Ég fullyrði að þetta var sýndarmennska. Sáttanefndin er búin að skila af sér eftir níu mánaða vinnu og nú keppast þingmenn stjórnarmeirihlutans við að reyna að útskýra að frumvarpið sé í lagi og í tengslum við þá vinnu. Það er bull og kjaftæði. Ég vitna í ályktun frá stjórnarfundi Landssambands smábátaeigenda þar sem segir meðal annars, með leyfi forseta: „Frumvarpið er samið án minnstu aðkomu þeirra sem starfa í sjávarútvegi. Sú vinnutilhögun er harla ólíkleg til að skapa sátt við þá sem þar eiga hlut að máli.“

Ég held að þetta segi ýmislegt og í raun allt sem þarf til að sýna fram á að það er ekkert verið að vinna eftir niðurstöðu sáttanefndar í sjávarútvegi. Ekki neitt. Það er verið að hverfa frá markaðsfyrirkomulagi yfir í algjört ráðherraræði. Við höfum þó ákveðna reglufestu á þeirri markaðsvæðingu sem hefur verið í sjávarútvegi, ákveðna reglufestu. En við erum að ýta þessu inn í pólitíska handstýringu. Ég bendi meðal annars á 15% pottinn. Sjávarútvegsráðherra hverju sinni, hver sem hann er og hvaða nafn sem hann ber, getur farið heim í hérað og gert það sem hentar hans svæði.

Ég fullyrði að eftir þetta verður minni reglufesta og meiri óvissa og að mínu mati líka minni hvatar til að byggja upp í sjávarútveginum. Og með því að menn bera ekki sömu ábyrgð í umgengni við auðlindina er líka hægt að fullyrða að umgengnin mun versna. Ágætur maður sem kom á okkar fund spurði: Af hverju er verið að reyna að laga eitthvað sem er ekki í ólagi? Það er nákvæmlega það sem verið er að gera. Við erum með niðurstöðu sáttanefndar í sjávarútvegi og við vitum að allir helstu stjórnmálaflokkar landsins hafa í gegnum tíðina sagt: Setjum auðlindaákvæðið í stjórnarskrána. Höfum veiðileyfagjald. Það er hægt að breyta því með einhverju móti, hugsanlega til hækkunar. Við sjálfstæðismenn höfum líka léð máls á því. En sköpum festu og vissu fyrir sjávarútveginn.

Menn reyna líka að benda á Norðmenn og segja: Þeir hafa 18 ára nýtingartíma. Norskur sjávarútvegur er að nokkru leyti ríkisstyrktur. Hann er með allt öðrum hætti en sá íslenski. Þar fyrir utan er sjávarútvegur ekki undirstöðuatvinnugrein í Noregi eins og hann er hér á Íslandi, hann er burðarásinn í atvinnulífi okkar. Ég vil líka mótmæla því að þetta sé lítið frumvarp. Þetta er stórt frumvarp af því að það varðar veginn í því að afnema það sem vel er gert í íslenskum sjávarútvegi. Það má kannski segja, eins og menn hafa verið að tala um, að verið sé að setja inn í þetta allt sólarlagsákvæði í sjávarútvegi.

Ég ætlaði mér að koma inn á svo miklu meira hér. Ég spyr til dæmis út í d-lið í 1. gr. frumvarpsins þar sem segir að eigandi fiskiskips skuli vera lögskráður á skipið. Ég spyr út af allri kynjuðu hagstjórninni: Hvað ef sextug kona erfir mann sinn, ekkja, og lætur son sinn gera út bátinn? Hvað á þá að gera? Á að neyða hana til að selja bátinn? Með hvaða kynjuðu hagstjórnargleraugum hefur þetta plagg verið skoðað? Ríkisstjórn jafnréttis og allt það, (Gripið fram í.) þetta er allt eitthvert húmbúkk.

Ég vil (Gripið fram í.) sérstaklega draga það fram að ég er algjörlega mótfallin því sem menn hafa verið að setja fram varðandi veiðileyfagjaldið og skiptingu þess, það er að hluti veiðileyfagjaldsins eigi eingöngu að fara til landsbyggðarinnar en ekki í sameiginlega sjóði landsmanna. Þetta er vont fordæmi og þetta á alls ekki að gera. Þetta er almenn skattlagning og hún á að fara í ríkissjóð. Enda er í umsögn fjárlagaskrifstofunnar ýjað að því að um sé að ræða stjórnarskrárbrot, brot á jafnræðisreglu. Á sama hátt og skattar og eldsneytisgjöld á umferð á höfuðborgarsvæðinu renna beint í ríkissjóð á þetta gjald að gera það líka. (Forseti hringir.) Maður er varla búin með innganginn þegar ræðutíminn er búinn.

Frú forseti. Mér finnst málið vanbúið. Það er þyngra en tárum taki (Forseti hringir.) að ekki skuli hafa náðst meiri sátt um þetta mál en raun ber vitni. Það er af því að ríkisstjórnin reyndi ekki einu sinni að ná sátt við helstu hagsmunaaðila eða hin pólitísku öfl (Forseti hringir.) í landinu.