139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil vel að hæstv. utanríkisráðherra vitni til Framsóknarflokksins, því að Framsóknarflokkurinn er að vissu leyti guðmóðir ríkisstjórnarinnar, það vitum við öll.

Nei, ég er algjörlega ósammála hæstv. ráðherra. Ég tel hins vegar að hægt hefði verið, eftir þá miklu og ígrunduðu vinnu sem menn lögðu sig fram um að vinna í sáttanefnd um sjávarútveginn, að ná þeirri niðurstöðu sem þar var sett fram. Þetta frumvarp endurspeglar það ekki.

Varðandi söguskýringu hæstv. ráðherra þá dreg ég enga dul á það að allir stjórnmálaflokkar, þar á meðal Sjálfstæðisflokkurinn, hefðu átt að leggja sig alla fram um að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá. En það var ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem kom í veg fyrir að stjórnarskráin yrði endurskoðuð, heldur meðal annars Samfylkingin sem vildi ekki heyra á það minnst að stjórnarskránni yrði breytt ef hrófla ætti við ákvæðunum um embætti forseta Íslands. Það mátti ekki minnast á neinar breytingar á stjórnarskránni ef breyta ætti forsetaembættinu. Þannig kom upp ákveðinn pattstaða í pólitík eins og gerist, en því miður hefur það haft dýrkeyptar afleiðingar fyrir sjávarútveginn, sérstaklega ef þetta (Forseti hringir.) frumvarp fer í gegn.