139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef rætt það margoft að við eigum að athuga þá þætti sem hafa verið hvað umdeildastir í tengslum við sjávarútveginn og það er m.a. að fólkið í landinu vill að greitt sé fyrir aðganginn að auðlindinni. Það er það sem á að gera. Það er það sem við verðum að gera. Og það sem við eigum m.a. að binda inn í stjórnarskrá er að auðlindirnar séu sameign íslensku þjóðarinnar, allar auðlindir og í sjónum. Það er einfaldlega þannig. Það er heldur ekki svo að við höfum ekki í gegnum tíðina breytt neinu í kerfinu. Við höfum einmitt reynt að koma til móts við þær óskir sem hafa verið settar fram í tengslum við landsbyggðina. Það hafa verið settir byggðakvótar. Við höfum verið að hrófla við línuívilnunarkerfinu í þágu landsbyggðarinnar, í þágu smærri bátanna, í þágu rómantíkurinnar sem margir hafa sagt að menn missi núna úr sjávarútveginum.

Það sem má ekki gerast er að menn haldi hér fram pólitískri stefnu á grundvelli skoðanakannana. Það er nákvæmlega það sem kom fram í andsvari í gær að Samfylkingin, og mér heyrist núna Vinstri grænir líka, er að setja þetta mál fram af því að skoðanakannanir nú um stundir eru andsnúnar (Forseti hringir.) kvótakerfinu. Þess vegna er málið sett fram, hugsjónirnar eru ekki meiri. Ég vara við því að hrófla við þessu á meðan arðbærnin og hagkvæmnin (Forseti hringir.) er þetta mikil. Við skulum laga það sem þarf að laga en ekki hrófla við öllu hinu.