139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:07]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði áhuga á að heyra frá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur hvað hv. þingmaður mundi vilja gera annað til að bæta kerfið. Hún nefndi í ræðu sinni að Sjálfstæðisflokkurinn væri sammála því að það ætti að vera veiðigjald og talaði um að setja ætti auðlindaákvæði í stjórnarskrána. Hvað með annað? Af því að ef ég horfi á bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins þá tekur hann undir að það sé rétt að gerðir verði samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og eignarréttur ríkisins sé skýr. Síðan er talað um hvað eigi að koma fram í viðkomandi samningum. Er hv. þingmaður ekki sammála þessari niðurstöðu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni? Ég reyndi að finna þetta líka í samþykktum landsfundar sjálfstæðismanna en það var bara þetta tvennt sem ég fann þar. Ég mundi gjarnan vilja heyra frá þingmanninum hvort það sé eitthvað annað, og þó að það falli kannski ekki beint undir þetta frumvarp væri mjög áhugavert að heyra það.