139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:09]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Ég mundi þá vilja fara aðeins efnislega í þetta frumvarp sérstaklega, af því að fram kemur í meirihlutaniðurstöðu nefndarinnar að menn voru sammála um að byggðarlögum ætti að vera tryggður aðgangur að aflaheimildum. Er þingmaðurinn ósammála því? Í öðru lagi kemur þarna líka fram ákveðin tillaga um tegundatilfærslu og það er líka í samræmi við meirihlutaálit nefndarinnar. Síðan er ákveðin tillaga í frumvarpinu sem er í samræmi við frumvarp sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var 1. flutningsmaður að en er ósammála varðandi útfærsluna um VS-aflann. En síðan varðandi afstöðu, er hv. þingmaður með eða á móti strandveiðunum? Er hún með eða á móti þeim? Og vegna þess sem hér kom fram og ég hef töluverðar áhyggjur af þeim fordómum sem komu fram gagnvart sextugum konum: Ættum við ekki líka að hafa áhyggjur af sextugum körlum sem erfa bát og eru þeir þá ekki á sama báti að þeir þurfi þá annaðhvort að gera út eða selja bátinn?