139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:00]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég ítreka bara þann lykilpunkt sem mér finnst að eigi að vera í nálgun okkar hvað þetta mál snertir. Í fyrsta lagi það að við eigum að skipta … Ég hef bara eina mínútu, ekki satt, virðulegi forseti?

(Forseti (ÞBack): Eina mínútu.)

Ég hef eina mínútu. Það á að skipta arðinum af auðlind okkar jafnara á milli landsmanna og ég mundi til dæmis vilja að þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd tekur frumvörpin til afgreiðslu velti hún fyrir sér hvort veiðigjald eigi að vera hlutdeild af hagnaði með ríkari og betri hætti en nú er. Menn hafa velt því upp, t.d. hagfræðingurinn Jón Steinsson, að þegar búið sé að taka frá kostnað og afskriftir standi eitthvað eftir sem væri þá auðlindarentan, hagnaður fyrirtækisins af auðlindinni, og þeim potti yrði jafnara skipt á milli fyrirtækisins, þess sem nýtir, og almennings í gegnum auðlindasjóð sem að sjálfsögðu væri langbesti kosturinn til að koma þessum fjármunum jafnt og (Forseti hringir.) vel til allra.

Ég legg áherslu á að þetta mál fari að komast til nefndar til að umræðan (Forseti hringir.) geti farið fram á vettvangi hennar þar sem hægt er að breyta frumvarpinu.