139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og efnismikla ræðu og sömuleiðis fyrir að rifja upp góða daga okkar í borgarstjórn Reykjavíkur.

Ég vildi kannski í fyrra andsvarinu fá að inna hv. þingmann eftir því, fyrst honum lýst svo illa á þær fyrirætlanir sem hér eru uppi, með hvaða hætti hann sér fyrir sér að Ísland geti brugðist við niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um þær alvarlegu brotalamir á kerfinu okkar sem mannréttindanefndin komst að niðurstöðu um. Við sem fullvalda og frjáls þjóð og aðili að Sameinuðu þjóðunum þurfum auðvitað að bregðast við af mikilli alvöru því að hér er um að ræða athugasemdir Sameinuðu þjóðanna við grundvallarmannréttindi í samfélagi okkar. Sannarlega eru kannski engin auðveld svör við því en fyrst hv. þingmanni hugnast ekki þau svör sem við því eru færð fram í Jónsbók hinni stærri og hinni minni væri athyglisvert að heyra hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að mæta athugasemdum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.