139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við túlkum þetta álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna með þeim hætti að ekki megi takmarka veiðar og hver og einn Íslendingur eigi rétt á að ganga í þær þegar honum hugnast þá erum við auðvitað í mjög miklum vanda. Við erum í gríðarlegum vanda ef það er túlkunin, sem ég hef oft heyrt fleygt. Ég veit ekki alveg hvernig, en þetta mun svo sannarlega snerta mannréttindi okkar allra því að það sér það hver maður, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að það verður ekki arðbært fyrir þjóðarbúið og við munum ekki geta treyst á sjávarfang til að skaffa okkur björg í bú. Það er bara kaldur raunveruleikinn. Ég hef litið þannig á það, virðulegur forseti, að hver Íslendingur hafi rétt til að sækja sjóinn og sækja sér sjávarfang, ég held að enginn deili um það, en þetta er bara hundleiðinlegt, það er hundleiðinlegt að þurfa að setja reglur um takmarkaða auðlind. Þegar ég var í Sambandi ungra sjálfstæðismanna var ég settur yfir það mikla deilumál að skoða sjávarútvegsmálin vegna þess að ég var ekki búinn að skipa mér í neinn hóp manna, (Gripið fram í.) ég kom úr Borgarnesi og var ekki tengdur þeim deilum sem þarna voru uppi. Ég nálgaðist þetta þannig að vilja ná sem allra, allra bestri niðurstöðu. Niðurstaðan er því miður alltaf sú að við verðum að takmarka sókn í takmarkaða auðlind og síðan snýst þetta bara um hvað eru skástu reglurnar. Það er margt sem bendir til þess þó að þessi mannanna verk sem hafa verið sett upp séu svo sannarlega eitthvað sem við þurfum að fara yfir séu (Forseti hringir.) það illskásta.