139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hafði einmitt tekið eftir þessari frétt um álit seðlabankastjóra. Það er auðvitað í samræmi við álit allra hagsmunaaðila sem tengjast greininni, hvort sem eru launþegar eða útgerðaraðilar, Landssamband smábátaeigenda eða Landssamband íslenskra útvegsmanna, allir eru sammála um að ekki sé verið að taka á þessu á þann hátt sem stjórnarsáttmálinn lýsir. Þess vegna er auðvitað áhyggjuefni að við séum að fjalla um þetta frumvarp núna sem á að taka gildi innan örfárra daga, þessu á að ljúka á fimm, sex dögum, að við séum að fjalla um svo róttækar breytingar á kerfi sem gætu þýtt að það yrði veikara og væntanlega ekki nægilega öflugt til að byggja upp atvinnulífið. (Forseti hringir.)

Áhugavert væri að heyra álit hv. þingmanns á því hvaða breytingar hann vill gera helstar, ef einhverjar, (Forseti hringir.) við núverandi aðstæður.