139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:36]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég drap aðeins á þessa skýrslu í aðdraganda umræðunnar. Ég ætla að segja að í fyrsta skipti í afar langan tíma er ég sammála seðlabankastjóra, ég er sammála honum um þau áhrif sem þessar óljósu breytingar á fiskveiðistjórnarkerfi geta haft á viðskiptabankana. Seðlabankastjóri vísar til þess að viðskiptabankarnir eiga töluvert undir því í lánasöfnum sínum að sjávarútvegsfyrirtækjunum gangi vel og það á ekki síst við um Landsbanka Íslands. Það kom að því að ég deildi skoðunum með núverandi seðlabankastjóra.

Ég held að brýnt sé að Seðlabankinn bendi á einmitt þessi atriði. Ég vísaði líka til þessa í ræðu minni. Í þetta mál vantar alveg að menn hafi skoðað afleiðingarnar sem þessar kerfisbreytingar munu hafa. Hvað á það að þýða að við bíðum eftir niðurstöðu hagfræðingahópsins fram eftir öllum júnímánuði? Þetta eru auðvitað ekki vinnubrögð sem hægt er að sætta (Forseti hringir.) sig við.