139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:41]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get nú ekki tekið undir með hv. þingmanni að greinin sé eins illa stödd eins og hún lét í veðri vaka. Ef við horfum til afskrifta í íslenskum atvinnuvegi í kjölfar hrunsins sjáum við að afskriftir eru minnstar hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum. Það er nú bara þannig. Við sjáum líka að ábatinn sem við fáum núna frá sjávarútveginum skiptir verulega miklu máli fyrir þjóðarbúið. Það er líka staðreynd. Hvort tveggja skiptir verulega miklu máli.

Varðandi fjárfestingar greinarinnar í skipum og slíku þá viljum við auðvitað að menn fari í slíkar fjárfestingar. En engum manni í í sjávarútvegi dettur í hug að fara í neinar fjárfestingar í þeirri óvissu sem búið er að búa greininni með þessum tilburðum og breytingum á sjávarútvegskerfinu sem ríkisstjórnin hefur verið allt of lengi að koma með. Liðin eru tvö ár frá því ríkisstjórnin tók við og boðaði miklar breytingar.