139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru alveg gild sjónarmið hjá hv. þm. Helga Hjörvar. Þegar takmarka þarf aðgang að auðlind eins og gert er í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og því kerfi sem á að koma á, þ.e. þar sem auðlindin er takmörkuð og sókn í hana verður að einhverju leyti takmörkuð, er alveg augljóst að fullt atvinnufrelsi verður ekki fyrir hendi, það sætir almennum takmörkunum.

Ég hef ekki talið að það væri mannréttindabrot að þeir sem vilja hefja útgerð þurfi að fara í einhvers konar fjárfestingar til að hefja þann rekstur. Slíkar fjárfestingar geta falist í kaupum á bátum, skipum, tækjabúnaði og öðru slíku. Slíkar fjárfestingar geta líka falist í kaupum á aflaheimildum eða leigu á aflaheimildum, ef út í það er farið. Ég hef ekki talið að í þessu væru óásættanlegar takmarkanir á atvinnufrelsi. Allir sem hefja atvinnurekstur þurfa að leggja í einhvers konar fjárfestingar. Aflaheimildir eru sérstök tegund af fjárfestingum. Ég hef ekki áhyggjur af þeim þætti enda verður það svo áfram, jafnvel þó þær breytingar komist á sem boðaðar eru í þessum frumvörpum, að hindranir verða fyrir nýja aðila að hefja störf í útgerð. Það er alveg ljóst að t.d. takmarkaðar strandveiðiheimildir eða eitthvað slíkt munu aldrei beinlínis opna aðilum (Forseti hringir.) aðgang að sjávarútveginum sem alvöruatvinnurekstri nema menn komi þar inn með verulegar fjárfestingar (Forseti hringir.) og verulegt fjármagn til viðbótar.