139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ágæta ræðu. Hann velti dálítið fyrir sér því ráðherraræði sem kemur fram í frumvarpinu sem við fjöllum um hér. Álit þess sem hér stendur er reyndar það að við höfum séð ákveðna breytingu í þessa átt hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þeim frumvörpum sem frá honum hafa komið á yfirstandandi kjörtímabili, þar hefur vald ráðherrans verið að styrkjast á ýmsum sviðum. Eins og kom fram í umræðum fyrr í dag, m.a. hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, var talað um handstýringarvald ráðherra og að það væri kannski fullmikið og þyrfti að skoða það frekar.

Mig langar í ljósi þessa að biðja hv. þingmann að velta því upp hvað menn hafi séð fyrir sér eða hvert markmiðið hafi verið með því að ná fram einhverjum breytingum á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi með þessu frumvarpi. Er einfaldlega verið að færa vald til ráðherra fyrst og fremst? Sumir hafa sagt og dregið fram að helstu kostir þessa frumvarps og breytinganna sem menn sækjast eftir séu að búa til líf í byggðum landsins eða litlum höfnum, það sé í það minnsta jafnmikilvægt og arðsemin eins og kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar. Eða hvert álítur hv. þingmaður að markmið stjórnarflokkanna sé með breytingunum? Mig langar líka að spyrja hvaða breytingar hv. þingmaður mundi vilja gera á núverandi kerfi ef hann fengi að ráða því og leggja fram eigið frumvarp?