139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Í gær í fyrri ræðu minni náði ég ekki að komast í gegnum allt frumvarpið en hef til þess fimm mínútur í dag, ég veit svo sem ekki hvernig það mun ganga. Umræðan í gær og í dag hefur að mörgu leyti verið mjög áhugaverð og oft á tíðum hefur verið fjallað málefnalega um ákveðna þætti þó að vissulega hafi spilað inn í ýmis önnur sjónarmið eins og gengur og gerist með svo stór mál eins og sjávarútvegsmál og mikilvægi þeirrar atvinnugreinar. Eins og fram hefur komið var nýlega gerð könnun með sambærilegum hætti og skapandi greinar gerðu og kom þá fram að sjávarútvegsklasinn veltir um 300 milljörðum við greinina og tengt henni væri starfandi 12–14 þúsund manns og 700 fyrirtæki væru í greininni, ef ég man það rétt úr fréttum. Margt annað var reyndar mjög áhugavert í þeirri könnun sem ég held að eigi eftir að skýrast betur á seinni stigum, hún var ekki held ég fullunnin eða ekki alveg búið að ganga frá henni.

Einnig hafa margir þingmenn, ekki síst Samfylkingarinnar, komið hingað upp og tekið upp stefnu sem við framsóknarmenn samþykktum á flokksþingi okkar og reynt að bera það saman við þessi frumvörp. Oft hefur verið minnst á hið svokallaða stóra frumvarp, sem ekki er enn farið að mæla fyrir á þinginu, en einnig á þetta frumvarp og þó að það sé kannski ekki eins stórt í sniðum ef miðað er við fjölda greina eða þykkt þá hefur það allnokkur eða veruleg áhrif.

Svo ég renni hratt yfir þann meginmun sem í þessu liggur þá er í frumvarpi þessu verið að tala um að taka út fyrir sviga og auka kvóta, þorskkvóta og ufsakvóta, fyrst og fremst til strandveiða, líka á næsta ári. Síðan á að taka út fyrir sviga verulega aukningu til byggðaaðgerða sem ráðherra mun síðan ráða nánast yfir, eins og við höfum dálítið rætt hérna, samkvæmt 3. gr. frumvarpsins.

Við framsóknarmenn leggjum til að í þessa potta verið fyrst og fremst tekið eftir stofnstærðaraukningu. Það sé sem sagt ekki verið að taka af öðrum sem hafa atvinnu af greininni í dag og hafa haft kannski um árabil, séu í 100% starfi, heldur að aukningin verði í þessa potta eftir því sem stofnstærðaraukning gefi tilefni til og jafnframt að það sé jákvæð reynsla af pottakerfinu. Það er líka jafnmikilvægt. Þetta er svona meginmunurinn hvað varðar þetta svokallaða minna frumvarp og hugmyndir okkar. Það eru reyndar aðrir þættir þar inni sem snerta veiðigjaldið sem við förum nokkuð aðra leið, þó að hugmyndafræðin að skila hluta af auðlindagjaldinu til þeirra svæða sem auðlindagjaldið verður til í, eða veiðigjaldið, sé sambærileg, en útfærslan er hins vegar með allt öðrum hætti.

Mér hefur einnig fundist skorta í það frumvarp sem við ræðum nú að þar er ekkert fjallað um nýsköpun, ekki neitt. Ég held að menn rugli því oft saman við nýliðun, það vantar kannski skilgreiningu á því hvað nýliðun er. Ég held það gæti verið möguleiki ef menn mundu einhenda sér í að velta fyrir því sér með hvaða hætti er hægt að stækka kökuna, að ná meiri afla í þeim tegundum sem við erum að nýta í dag, hugsanlega í einhverjum sem við nýtum ekki nægilega vel, og eins nýjum tegundum. Til þess gæti þurft að koma stuðningur frá ríkisvaldinu. Það skortir alveg hér.

Ég held að hinni gríðarlegu aukningu sem rætt er um að ráðherra fái yfir að ráða í sambandi við byggðaaðgerðir væri miklu skynsamlegra fyrir komið ef við gætum komið einhvers konar nýsköpunarsvip á hana og það væri til þess gert til að stækka kökuna, koma nýjum tegundum til og við ólíka hluti eins og skeldýrarækt, fiskeldi og annað í þeim dúr sem mun verða til þess að efla hagvöxt í landinu, skapa störf og (Forseti hringir.) að stækka þá köku sem er til skiptanna.

Ég sé því miður, frú forseti, að tími minn (Forseti hringir.) er ákaflega stuttur til að fara efnislega yfir þetta frumvarp. Ég verð því að ljúka máli mínu.