139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:03]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir furðulegt að hv. þingmaður skuli vera að rukka mig um hvað fólst í sáttaleiðinni. Hv. þingmanni ætti að vera það fullkunnugt. Hún veit að í störfum sáttanefndarinnar, þar sem Einar K. Guðfinnsson sat, gerðum við sjálfstæðismenn miklar tilslakanir hvað varðar okkar fyrri stefnu í sjávarútvegsmálum. Við höfum t.d. fallist á það og höfum lagt á það áherslu að sett verði í stjórnarskrá ákvæði sem allir geta sætt sig við um sameign þjóðarinnar á auðlindinni. Við sættum okkur hins vegar ekki við það, af því að það var nefnt hér, að leigutíminn verði eins stuttur og kveðið er á um í þessum frumvörpum og í því kerfi sem mælt er fyrir um í þessum frumvörpum öllum. Hv. þingmaður á að vita að sú sátt sem þar var gerð var svikin. Undir það taka allir sem tóku þátt í þeirri sáttaumleitan, hvort sem það eru útgerðarmenn, sjómenn, atvinnurekendur eða vinnuveitendur.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann aftur að þessu: Getur hún bent mér á þá aðila sem mæla þessum frumvörpum bót, fyrir utan nokkra þingmenn Samfylkingarinnar og þingmenn Vinstri grænna? Hverjir styðja það mál sem hér er til umfjöllunar? Hverjir eru það? Ég get ekki nefnt þá vegna þess að þeir fyrirfinnast ekki. Það streyma yfir okkur alls kyns ályktanir frá útvegsmönnum, sjómönnum, fiskvinnslufólki, sveitarfélögum og hverjum sem er, þar sem menn mótmæla þessu frumvarpi eða gjalda varhuga við því. Síðast gerði seðlabankastjóri það í dag. Og prófessorar eins og Þórólfur Matthíasson, sem hefur fundið (Forseti hringir.) núverandi kerfi allt til (Forseti hringir.) foráttu, treystir sér ekki einu sinni (Forseti hringir.) til að styðja frumvarpið. En hverjir eru það sem bera í bætifláka fyrir þessa hrákasmíð?