139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:06]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það fór eins og mig grunaði að hv. þingmaður getur auðvitað ekki nefnt hvað það var sem menn náðu samkomulagi eða svokallaðri sátt um í nefndinni góðu. Hann talar hins vegar um einhverja sátt sem hafi átt að vera, einhverja skilmála sem Sjálfstæðisflokkurinn átti að hafa sett, að sjálfstæðismenn hafi gert tilslakanir. Þeir hafi fallist á að setja stjórnarskrárákvæði um þjóðareign á auðlindum en þeir sætti sig ekki við ákveðinn leigutíma sem rætt sé um í sambandi við þessi frumvörp. Sáttin átti aldrei bara að vera við Sjálfstæðisflokkinn. Sáttin átti náttúrlega að vera við þjóðina alla. Fyrsta skrefið til að ná þeirri sátt eða finna samkomulagsgrundvöll var auðvitað starf þessarar nefndar en þjóðin öll sat að sjálfsögðu ekki við það borð. Þar sátu aðallega og fyrst og fremst auðvitað hagsmunaaðilar. Í niðurstöðu nefndarinnar er ekki eitt einasta orð um hversu langur leigutíminn eigi að vera á nýtingarsamningunum. Hins vegar er opnað á það að gerðir séu nýtingarsamningar við útgerðina á ákveðnum forsendum gegn gjaldi. Ég sé ekki betur en að það frumvarp sem við erum að fara að ræða hér í framhaldinu byggi nákvæmlega á þeirri niðurstöðu og ýmsu öðru sem kemur fram í niðurstöðu nefndarinnar. Það er bara fjas að halda því fram að einhver sátt hafi verið svikin í þessu sambandi. Þvert á móti hafa menn lagt sig töluvert fram um að reyna að útfæra tillögur til nýrra laga á grundvelli þess starfs sem unnið var í þessari nefnd.

Svo spyr hv. þingmaður: Hverjir styðja frumvörpin? Það kemur í ljós þegar umsagnir fara að berast fyrir þingnefndirnar þegar málin eru komin til þinglegrar meðferðar. Ég ætla ekki að þjófstarta þeirri umræðu eða leggja mönnum hugsanir í höfuð eða orð í munn varðandi afstöðu þeirra til þessara frumvarpa. Það mun að sjálfsögðu bíða nefndarinnar að taka afstöðu til þess og hlýða á það þegar (Forseti hringir.) þar að kemur.