139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:20]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vissi að hv. þm. Helgi Hjörvar er snöggur að skilja hlutina og ég hef þá reynslu af því að vinna með honum að ég veit að hann er vel greindur, og þetta lokastef get ég því útskýrt fyrir honum þannig að hann sé þá endanlega kominn á mína skoðun.

Þannig er mál með vexti að ef upphafleg úthlutun, ég er sammála þingmanninum í því, ef kvótar hefðu verið boðnir upp á markaðslegum forsendum við upphaflega úthlutun og þeir sem vildu kaupa kvóta hefðu keppt um verðið og keypt kvótana á þeim tíma, að það hefði verið hin heppilega lausn. Þá hefði ekki verið um að ræða það sem var hér 1983, reyndar meira 1991 þegar framsalið var leyft af hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, þegar um var að ræða það sem kallað er (Forseti hringir.) „Windfall gain“. Þetta er hárrétt athugað hjá (Forseti hringir.) þingmanninum en á ekki við vegna þess að við erum ekki að úthluta upphaflegri úthlutun núna.