139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:13]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er fámennt í þingsalnum og erfitt að slíta umræðuna svona oft í sundur en þannig er það bara, kannski erfitt að fylgjast með þessu heima en við það verður að búa.

Við erum að fjalla um breytingar á kvótakerfinu og nú er til umræðu hið svokallaða minna frumvarp sem tekur á strandveiðum og byggðakvóta, aflamarki og veiðigjaldi. Svo eru nokkur tímabundin ákvæði og ýmsar heimildir til handa hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þetta er það sem stendur til að samþykkja á þeim örfáum dögum sem eftir lifa af þinginu eða þá hugsanlega að taka inn í nefnd, fá umsagnir í sumar og klára í haust. Ég tel mikilvægt að fá málið inn í nefnd og ræða það frekar vegna þess að á þessu frumvarpi eru margir gallar.

Umræðan um kvótakerfið hefur því miður ekki verið á háu plani í þjóðfélaginu undanfarin ár og mikils misskilnings gætir um þau byggðarlög þar sem eru fyrirtæki sem eiga kvóta. Hæstv. forsætisráðherra hefur leyft sér að tala um kvótakónga og sægreifa og er örugglega að tala upp í eyrun á einhverjum hópi í þjóðfélaginu sem telur að allur arður af auðlindinni renni í hendur þessara manna. Sem betur fer er það þó ekki þannig.

Í Norðausturkjördæmi, ef við tökum það sem dæmi, eru sjávarútvegsfyrirtækin einfaldlega grunnstoðir samfélaganna þar, þ.e. flestra byggða í Norðausturkjördæmi. Ég leyfi mér að fullyrða að ef það er eitthvert landsvæði sem gæti kallað sig landsbyggð er það einmitt Norðausturkjördæmi. Það er einfaldlega staðreynd að í þessum minni byggðarlögum skipta stórfyrirtæki, sjávarútvegsfyrirtækin, öllu máli. Þau halda uppi atvinnu á svæðinu, þau borga laun sem leiðir svo af sér störf fjölda iðnaðarmanna og önnur afleidd störf. Ef þessi fyrirtæki fara er grunnstoðunum einfaldlega kippt undan þessum samfélögum.

Það er akkúrat það sem er verið að gera í þessum frumvörpum báðum, það er einfaldlega verið að kippa grunnstoðum undan samfélögum og ekki síst á Austurlandi. Það sorglega er að ekki hefur farið fram úttekt á því hvaða áhrif frumvörpin koma til með að hafa á hinar dreifðu byggðir landsins og afkomu fyrirtækjanna þarna. Þegar ég segi að þessi fyrirtæki séu mikilvæg er það vegna þess að þau eru mikilvæg fyrir þá sjómenn og fiskverkakonurnar sem vinna hjá þessum fyrirtækjum. Við skulum ekki halda að það sé verið að búa til ný störf í atvinnugreininni, það er einfaldlega verið að færa störf frá þeim sjómönnum sem hafa lífsviðurværi sitt af þessari atvinnugrein til einhverra annarra. Það er verið að taka störfin af fiskverkakonunum og -körlunum sem vinna í vinnslunum víðs vegar um landið og færa þau eitthvað annað.

Við þingmenn Norðausturkjördæmis heyrðum rétt áðan í fulltrúum fyrirtækja sem eru austur á landi. Það er sorglegt að það skuli vera fyrstu merki þess að alþingismenn fái með beinum hætti að heyra hvaða afleiðingar þessi frumvörp hafa. Þar var fullyrt að fiskvinnsla á Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði mundi einfaldlega leggjast af. Þá spyr maður: Er þá ekki betur heima setið en af stað farið? Með því að dreifa álaginu á til að mynda strandveiðar og taka meira í byggðakvóta er stoðunum einfaldlega kippt undir öðrum samfélögum sem hafa það ágætt í dag.

Við framsóknarmenn héldum flokksþing á dögunum og samþykktum að við vildum gera ýmsar útfærslur og breytingar á kvótakerfinu. Við töldum að kvótakerfinu mætti alls ekki umbylta en vorum sammála um að hægt væri að gera á því litlar breytingar. Það er hægt að gera kerfið sanngjarnara þannig að frekari sátt náist um það. Við erum til að mynda reiðubúin að búa til fjóra potta sem eru þó með allt öðrum hætti en nú eru boðaðir í þessum frumvörpum. Við viljum fara hægt í sakirnar og okkur finnst að þessir pottar megi vaxa úr 3,5% í 10% að hámarki ef vel tekst til og ef það yrði aukning á þeim kvóta sem nú er úthlutað. Við erum ekki reiðubúin að stíga jafnstór skref og ríkisstjórnin er að taka í dag.

Við tókum á strandveiðum vegna þess að það er ákvæði í þessu frumvarpi um strandveiðar þar sem ráðherra fær heimildir til að auka heildaraflamagn umfram 6 þús. lestir um 3 þús. á næsta og þarnæsta ári. Það er umfram ráðleggingar Hafró. Strandveiðar eru ágætar að vissu leyti vegna þess að það er jákvætt að það sé líf víðs vegar um land, í byggðarlögum sem hafa átt erfitt uppdráttar. En það eru stórir og miklir gallar á því kerfi, til að mynda er algjörlega ótækt að langstærstum hluta aflans sé lestað í bíla og keyrt með hann í burtu. Þess vegna vildum við framsóknarmenn að þetta færi í vinnslurnar, langeðlilegasta leiðin með strandveiðarnar væri að þær mundu skapa vinnu í þeim vinnslum sem eru til staðar. Ég vona að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd taki þetta til skoðunar.

Svo er annað atriði, þetta má ekki verða að hobbíi. Aukning í strandveiðum þýðir einfaldlega að það er verið að taka störf af einhverri fiskverkakonu eða sjómanni sem hefur unnið við þessa starfsgrein langalengi og þau hugsanlega færð til einhverra manna sem áttu kvóta og seldu hann. Það gengur einfaldlega ekki og það getur ekki verið hugsunin með strandveiðum að slíkt viðgangist. Við lögðum til að fjöldi báta yrði ákveðinn og að þeir bátar fengju einfaldlega leyfi til að stunda strandveiðar þannig að það færi ekki á milli mála að þetta væri allt saman gert á sanngjarnan hátt.

Það er því miður sorgleg staðreynd að á meðan fiskvinnslur á Austurlandi skapa atvinnu á Fáskrúðsfirði, skapa atvinnu fyrir þá sem búa á suðurfjörðunum, sé hægt að veiða þar og fara með aflann í burtu sem gæti svo leitt til þess að leggja yrði vinnsluna niður eins og fullyrt var á fundi með þingmönnum Norðausturkjördæmis fyrir ekki svo löngu. Það er hægt að ná sátt um strandveiðar, gera þær sanngjarnar, þær eru jákvæðar á margan hátt en við megum ekki gera strandveiðar að einhverri meginreglu, þetta verður að vera upp að vissu marki.

Við vildum líka taka hluta af þessum 3,5% sem nú eru tekin út fyrir sviga í alls kyns ívilnanir og setja þau í nýsköpun. Það er orð sem mér finnst algjörlega vanta í þessum frumvörpum, mér finnst vanta þá hugsun að fyrirtæki úti um allt land reiða sig á afkomu stóru sjávarútvegsfyrirtækjanna og að í rauninni er fiskiðnaðurinn hátækniiðnaður. Það er ástæðan fyrir því að störfum hefur fækkað úr 15 þús. í 7 þús. á 15 árum. Það skal enginn láta sig dreyma um að þessi störf komi aftur, ekkert frekar en störf í landbúnaði koma aftur nema menn ætli að fara að heyja með orfi og ljá á nýjan leik. Þetta er hátækniiðnaður, það hefur orðið gríðarleg hagræðing og við erum núna að selja lúxusvöru á markaði úti um alla Evrópu og víðar. Hún er dýr og hún á að vera það vegna þess að við erum með einar fullkomnustu fiskvinnslur í heiminum. Þetta er staðreynd og ég held að þegar menn tala um kvótakerfið og sjávarútvegsfyrirtæki ættu þeir líka að hafa í huga orðin nýsköpun, hátækni og sjálfbærni. Þetta eru tískuyrði en þau eiga jafn vel við um sjávarútveginn og aðrar atvinnugreinar, jafnvel enn frekar. Þetta er nefnilega okkar auðlind.

Eins og ég hef sagt höfum við líka lagt til, en á annan hátt en gert er í þessum frumvörpum, að búa til potta sem gætu gert kerfið sanngjarnara án þess að kollvarpa því. Ég segi alveg eins og er að ég tel að úthlutun á norsk-íslensku síldinni eigi eins og með aðrar tegundir að fara í slíkan pott. Ég tel það mjög mikilvægt og beini því til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að taka það fyrir þannig að fullt jafnræði gildi á þessu sviði.

Þá erum við komin að hinu svokallaða veiðigjaldi. Við samþykktum á flokksþingi okkar að ástæða væri til að tekið yrði hóflegt veiðigjald af hagnaði fyrirtækja. Nú er lagt til að þetta sé tekið af EBITDA, þetta sé tekið af fyrir fram og skiptir þá engu máli hver afkoma fyrirtækjanna er. Ég tel þetta rangt skref en það sé hægt að laga þetta.

Þá verð ég líka að segja, frú forseti, að það að auka byggðakvótann um 8 þús. tonn er ansi vel í lagt. Að úthluta þessu til sveitarstjórna sem vilja í rauninni ekkert með úthlutunina hafa að gera er rangt skref og ég legg til að fiskvinnslurnar fái hann til að tryggja að hann skapi störf þar sem hann á að gera það.

Nú er tími minn liðinn, hann er stuttur við 1. umr. Vonandi kemst ég aftur að og þá gefst mér tækifæri til að ræða (Forseti hringir.) frekar um allar þær heimildir sem (Forseti hringir.) ráðherra eru veittar í þessu frumvarpi sem ég tel ganga allt of langt.