139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:31]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir þessa fyrirspurn. Varðandi fyrstu spurninguna, um orð hæstv. forsætisráðherra, tek ég undir það og er þeirrar skoðunar að hún vilji og sé í rauninni að reyna að skapa óeiningu um þær breytingar sem hér eru til umræðu vegna þess að hún líti svo á að Samfylkingin græði pólitískt á því. Það er mín tilfinning. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég heyrði bút úr ræðu hæstv. forsætisráðherra á síðasta flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar þar sem hún talaði niður til atvinnugreinarinnar. Þeir stjórnarliðar sem tala hér um sátt og koma með þessi skilaboð af flokksstjórnarfundinum eru einfaldlega að segja ranga hluti.

Fundurinn áðan var gríðarlega góður. Eins og ég nefndi hefur engin hagfræðileg úttekt farið fram á þessum frumvörpum. Forsvarsmenn fyrirtækjanna fóru mjög ítarlega yfir það, þetta var langur fundur, og þeir rökstuddu mál sitt vel þegar þeir töluðu um hvaða afleiðingar þetta hefði. Því miður fannst mér stjórnarþingmennirnir á fundinum gefa misvísandi upplýsingar en við skulum samt vona að þeir komi til með að berjast með okkur vegna þess að þeir eru eftir sem áður þingmenn Norðausturkjördæmis og sjá svart á hvítu hvaða áhrif þetta hefur á fyrirtækin þar. Við skulum vona og sjá til.

Varðandi þriðju og síðustu spurninguna, þegar allt er saman tekið og ef við ætlum að ganga að þessum fyrirtækjum þýðir það einfaldlega uppsagnir á fólki. Það þýðir minni fjármuni til (Forseti hringir.) nýsköpunar þannig að þetta bitnar ekki bara á fyrirtækjunum, (Forseti hringir.) þetta bitnar á öllu samfélaginu.