139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:42]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gaman þegar aðrir þingmenn hæla tillögum Framsóknarflokksins. Það vill svo skemmtilega til að þær eru vel unnar og vel ígrundaðar. Við gáfum okkur góðan tíma í þá vinnu og ríkisstjórnin hefði mátt notfæra sér þau vinnubrögð og þá vinnu. Þá hefðum við kannski ekki rætt þessi frumvörp svona ítarlega.

Ég nefndi hér að ég hef mikinn fyrirvara við strandveiðar, ég skal alveg viðurkenna það, en við nefndum á flokksþinginu okkar að við vildum nota þetta tæki til nýliðunar. Þess vegna nefndi ég það í fyrri ræðu minni að ef stór hluti þeirra sem sækja strandveiðar er aðilar sem hafa þegar selt sig út úr kerfinu þurfum við einfaldlega að endurskoða kerfið í heild sinni. Við lögðum líka til að þetta yrði bundið við leyfi þannig að það væri ekki sama kraðak og er í dag. Ég (Forseti hringir.) hef sjálfur efasemdir um að við eigum að auka kvóta til strandveiða.