139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:47]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, hv. þingmaður, þakka þér fyrir greinargóð svör. Það er annað sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í, hugmyndirnar sem koma fram í frumvarpinu um endurdreifingu veiðileyfagjalds, hvernig hluta af veiðileyfagjaldinu verður endurdreift aftur til sjávarbyggðanna úti á landi. Hv. þingmaður situr í fjárlaganefnd og þekkir vel inn á fjárreiður ríkisins og hvernig þeim hlutum öllum er háttað. Er þingmaðurinn því sammála að það eigi að fara þá leið að endurdreifa veiðigjaldinu eða vill þingmaðurinn gera eins og margir þingmenn hafa talað um undanfarna tvo daga, að veiðigjaldið fari einfaldlega í ríkissjóð og Alþingi úthluti eða dreifi veiðigjaldinu eftir hefðbundnum leiðum í fjárlögum (Forseti hringir.) til byggðanna eða Reykjavíkur eftir því sem við á?