139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þar kom hv. þingmaður við viðkvæma taug hjá mér. Hann er kannski farinn að þekkja hver hún er — fjárfesting. Hún er náttúrlega hættulega lítil þrátt fyrir að menn hafi náð þeim markmiðum að verðbólga er orðin huggulega lítil — hún er reyndar vaxandi aftur, því miður — og vextir eru orðnir mjög lágir. Samt gerist ekki neitt. (BJJ: Doði.) Það er doði, það er stöðnun og allt er stopp. Fjárfestingin, eins og ég hef mörgum sinnum sagt, er allt of lítil. Án fjárfestingar skapast engin atvinna, án atvinnu er ekkert að gera hér á landi og fólk flytur unnvörpum til útlanda. Þetta er dapurlegt.

Þessi tvö frumvörp komu seint fram vegna þess að hæstv. ríkisstjórn gat ekki komið sér saman um neina stefnu, hún er ekki einu sinni til enn þá. Engin markmið eru í þessum frumvörpum, ekkert er sagt um hvert eigi að að stefna eftir 10, 20 ár. Frumvarpið hérna er mjög slæmt, fyrir utan það seinna sem ég á eftir að fara í gegnum. Bann við framsali þýðir bara að menn ætla að taka arðsemina í greininni úr henni, þ.e. arðsemi sjávarútvegsins sem hefur haldið íslenskri þjóð gangandi þrátt fyrir ógurlegar lagaflækjur í kringum hana, það á að taka hana algjörlega burt.

Þar sem sjávarútvegurinn er svona mikilvægur fyrir þjóðina hef ég af þessu verulega miklar áhyggjur. Ég get ekki séð að útgerðarmenn fjárfesti núna á meðan þetta limbó stendur yfir og enginn veit hver framtíðin verður.