139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:22]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, frumvarp sem er undanfari hins órædda frumvarps frá hæstv. sjávarútvegsráðherra. Þegar við ræðum frumvarpið nú og síðan hið órædda frumvarp hljótum við að varpa fram spurningunni: Hvað liggur að baki þeim breytingum sem boðaðar eru í þessu frumvarpi og í hinu órædda? Hvað liggur að baki? Ríkir einhver langtímahugsun um breytta nýtingu auðlindarinnar? Ríkir langtímahugsun um félagslega og hagfræðilega hagkvæmni breytinganna? Hefur verið reiknað út hvort þær verði þjóðhagslega hagkvæmar til lengri tíma litið?

Virðulegi forseti. Ekkert af þessu liggur fyrir en ætti að sjálfsögðu að vera grundvöllur þeirra breytinga sem fram eru lagðar, grundvöllur allrar umræðu í þinginu og í nefndum þingsins því bæði frumvörpin, þetta frumvarp og hið órædda, hljóta að fara til umfjöllunar í fleiri nefndum en sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Þau hljóta að fara til fjárlaganefndar sem fer með ríkisfjármálin. Þau hljóta að ganga til viðskiptanefndar sem fer með bankamálin og til samgöngunefndar sem fer með sveitarstjórnarmál, því allir þessir þrír þættir, ríkisfjármálin, bankamálin og sveitarstjórnarmál, tengja þessi frumvörp. (Gripið fram í: Og efnahags- og skattanefnd.) Svo við tölum ekki um efnahags- og skattanefnd og samhliða áhrif á alla þætti.

Grundvallarbreytingarnar sem boðaðar eru í frumvörpunum, verði þau að lögum, munu hafa áhrif um allt samfélagið á einn eða annan hátt. Til dæmis hefur komið fram í dag að núverandi seðlabankastjóri hefur áhyggjur af því að þær óljósu breytingar í frumvörpunum sem hér er rætt um, kunni að skaða viðskiptabankana.

Hver er samvinnan í ríkisstjórn þegar slík frumvörp eru fram lögð? Eru efnahags- og viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra, sjávarútvegsráðherra, þessir aðilar innan ríkisstjórnar, að tala saman þegar mál af þessu tagi eru lögð fram í þinginu? Eða er það svo, í þessu mikilvæga máli eins og í svo mörgum öðrum, að vinstri höndin veit ekki hvað sú hægri gerir eða hægri veit ekki hvað sú vinstri gerir eftir því hvort maður talar fyrst um Samfylkinguna og síðan um Vinstri græna eða öfugt?

Virðulegur forseti. Ég tel rétt að láta þess getið hér og nú að ég er fædd og uppalin í sjávarplássi úti á landi, nánar tiltekið á Akranesi. Ég þekki á eigin skinni sjávarútveginn, fiskvinnslu og margt sem að þeim málum kemur. Ég var og er þeirrar skoðunar að tími væri kominn á endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins og ræða mætti framsal og nýtingarrétt. Ég taldi, þegar sáttanefndin svokallaða var sett á laggirnar, að það starf væri hafið. Satt best að segja batt ég vonir við ásættanlega niðurstöðu fyrir hagsmunaaðila í sjávarútvegi sem og þjóðina alla, ásættanlega niðurstöðu frá sáttanefndinni sem síðar gæti orðið grundvöllur að frumvarpi um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég held að svo verði ekki.

Ég sagði „fyrir þjóðina alla“ vegna þess að stundum í umræðunni hefur verið sagt að þjóðin kalli á breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, þjóðin vilji þetta og hitt. Ef menn vilja koma málum sínum áfram er ótrúlega einfalt að fara í slíkt lýðskrum. Enginn hefur talað við þjóðina um þetta mál. Þó að Vinstri grænir og Samfylkingin hafi fengið 34 þingmenn í síðustu kosningum er það ekki þjóðin að baki þeim. Hluti þjóðarinnar er að baki þeim og það er kannski sá hluti þjóðarinnar sem þeir hafa rætt við og vill kannski breyta í þá veru sem flokkarnir tveir tala um. En að leyfa sér sýknt og heilagt að segja að krafa þjóðarinnar sé að gera þetta eða hitt er að mínu mat lýðskrum og alþingismenn eiga ekki að tala þannig við kjósendur í landinu og þar með þjóðina.

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu er rétt að rifja upp það sem segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, með leyfi frú forseta. Þar stendur:

„Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífsins sem fram undan er.“

Er það svo? Ríkisstjórnin hefur haldið sjávarútveginum í heljargreipum í tvö ár. Nú kemur hún fram með þessi frumvörp og segir að sjávarútvegurinn muni gegna lykilhlutverki í endurreisninni. Sérkennilegt það.

Það segir líka, með leyfi forseta:

„Við úthlutun aflaheimilda ber að gæta þjóðhagslegrar hagkvæmni, langtímasjónarmiða til að tryggja afkomu sjávarútvegsins, að hámarka afrakstur auðlindarinnar og tryggja sjálfbæra nýtingu fiskistofna við landið.“

Liggur þetta fyrir, frú forseti, nú þegar þessi frumvörp eru fram lögð? Ónei.

Í þriðja lagi stendur:

„Fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar. […] Mikilvægt er að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þar með rekstrargrundvöll til langs tíma.“ (Gripið fram í: Ertu að fara með gamanmál?)

Svo mörg eru þau orð sem standa í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um sjávarútveginn á Íslandi. Nú verður hver og einn að svara fyrir sig hvort frumvörpin sem hér liggja fyrir og eru til umræðu eru í takt við þessar ályktanir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Að mínu mati er ekki svo því að þær grundvallarbreytingar sem boðaðar eru munu líklegast hafa þær afleiðingar að áhugi á því að fjárfesta í sjávarútvegi mun hverfa. Öllum er ljóst að sjávarútvegsfyrirtækin í landinu hafa fjárfest umtalsvert í aflaheimildum, skipum, vinnslubúnaði, vöruþróun og markaðsstarfi til að viðhalda störfum og tryggja tilveru fyrirtækja vítt og breitt um landið. En verði þessi frumvörp að lögum er hugsanlega verið að grafa undan hvötum til fjárfestinga sem og umgengni um auðlindina.

Virðulegi forseti. Margir þeir sem fram til þessa hafa tjáð sig um frumvörpin utan þessa salar eru uggandi um að verið sé að hverfa frá því markaðsfyrirkomulagi sem ríkt hefur í greininni og í stað þess komi tilskipunar- og miðstýrt fyrirkomulag með geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna, jafnt í sveitarstjórnum sem annars staðar og að verið sé að bjóða upp á hlutastörf í greininni. Þegar fólki verður tíðrætt um strandveiðar sem kveikt hafa líf í höfnum landsins vítt og breitt er verið að færa störf frá einum aðila til annars. Það er engin nýliðun þegar tekið er frá einum til að færa til annars. Ekki er verið að skapa grundvöll til nýliðunar þegar atvinnuöryggi annarra í stéttinni er ógnað.

Fólk er uggandi um að pottarnir séu pólitísk gæluverkefni. Og fólk er uggandi um valdaframsal til ráðherra og segja það ógnvænlegt og þá skiptir engu máli úr hvaða stjórnmálaflokki sá ráðherra kemur.

Virðulegi forseti. Annað og verra kemur að mínu mati fram í frumvarpinu og umræðunni. Verið er að stilla upp sem andstæðum og andstæðingum landsbyggðinni annars vegar og höfuðborgarsvæðinu hins vegar. Slík nálgun er að mínu mati algjörlega óásættanleg þegar um undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar er að ræða, að etja saman sem andstæðingum íbúum á höfuðborgarsvæðinu og íbúum á landsbyggðinni. Það er eins og menn gleymi því að í Reykjavík er starfandi útgerð sem og í Hafnarfirði en það sveitarfélag er enn þá hluti af höfuðborgarsvæðinu.

Virðulegur forseti. Samhliða því að etja saman landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu er sagt að auðlindin sé í eigu þjóðarinnar. Þá er mér spurn: Hvar býr þessi þjóð? Býr hún bara á landsbyggðinni? Hvar býr þessi þjóð í umræðunni sem hér hefur farið fram?

Ég er þeirrar skoðunar að allar auðlindir eigi að vera í eigu þjóðar og ég vona að slík ákvæði nái inn í stjórnarskrá Íslands. Þess vegna meðal annars, af því að ég vil að auðlindir eigi að vera í eigu þjóðar, get ég ekki sætt mig við að auðlindagjald eða veiðileyfagjald renni að hluta til sveitarfélaga, að sem samsvarar 4/5 renni í ríkissjóð en 1/5 verði varið til sveitarfélaga og það samkvæmt sérstökum reglum.

Til hvers eru auðlindir í eigu þjóðar ef það fer síðan eftir pólitískum ákvörðunum hvernig rentunni af auðlindinni er varið? Með fullri virðingu fyrir sjávarplássum vítt og breitt um landið er þetta ekki rétta leiðin til að styðja og styrkja sjávarbyggðir á Íslandi. Miklu skynsamlegra væri að mínu mati að slíkt auðlindagjald rynni í ríkissjóð og skynsamlegra væri, þegar og ef við hefðum efni á, að það rynni í auðlindasjóð, áþekkan olíusjóði Norðmanna. Þá fyrst gætum við talað um auðlindir í eigu þjóðar og arð til þjóðarinnar sem síðan væri hægt að vinna með ef á þyrfti að halda.

Virðulegur forseti. Það er mikið verk fram undan í vinnu um þetta frumvarp sem og um hið órædda. Athyglisvert verður að fylgjast með umsögnum sem munu koma frá hluta þjóðarinnar. En þess ber að geta að að baki hagsmunaaðilum í sjávarútvegi, eigendum fyrirtækja, handhöfum kvóta, sjómönnum, fiskverkunarfólki, fólki í þjónustugeirum við sjávarútveginn og mörgum öðrum er fjöldi fjölskyldna. Og það er verk fyrir okkur í umræðunni nú og í náinni framtíð að hafa það í huga þegar stóru orðin eru látin falla.