139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:42]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að í jafnviðamiklu máli og við erum að ræða, breytingar á stjórn fiskveiða, verða menn seint sammála um alla þætti. Það breytir hins vegar ekki því að menn viðra skoðanir sínar, menn ræða málin og menn reyna að ná sáttum sem hlýtur að skipta meginmáli fyrir þennan undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, fyrir sjávarútveginn í heild sinni, fyrir það fólk sem þar starfar og hefur starfað um áratugaskeið. Hvorki þingmenn í stjórn né stjórnarandstöðu geta látið sem þeir einir og sér geti knúið fram prívatskoðanir sínar í þessum málum, það er ekki þannig.

Þegar svona stórt mál er undir ber þingmönnum í stjórn og stjórnarandstöðu að ræða málin til grunna við þá aðila sem mestu máli skipta, hagsmunaaðila (Forseti hringir.) í greininni, og þannig náum við árangri, öðruvísi ekki.