139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:46]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að hér geti allir, jafnt landsbyggðarþingmenn sem höfuðborgarsvæðisþingmenn, talað sig hása vegna sjávarútvegsmála, vegna þeirra breytinga sem virðast fyrirhugaðar á stjórn fiskveiða á Íslandi. Ég sé engan mun á því hvort maður er þéttbýlisþingmaður eða landsbyggðarþingmaður, stjórnarþingmaður eða stjórnarandstöðuþingmaður, þetta er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, hún snertir þjóðina í heild sinni. Hún snertir ekki eingöngu íbúa á landsbyggðinni.

Það sem er að gerast, virðulegur forseti, er að hér tekst á að því er mér sýnist grundvallarmunur hægri manna í pólitík og vinstri manna. Við getum tekið miðjumennina með hægri mönnunum. Við erum að hverfa hér frá því markaðsfyrirkomulagi sem ríkt hefur í greininni frá því að þetta fiskveiðikerfi var tekið upp. Ég man þá tíð þegar útgerðarmenn og sjávarútvegurinn stýrðu hér einu og öllu og gengið var fellt í tíma og ótíma vegna óhagræðis í sjávarútvegi. Mér sýnist að með því sem hér er verið að boða, tilskipunar- og miðstýrðu fyrirkomulagi með geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna, séum við að sigla inn í það sem var hér í sjávarútveginum fyrir 1985. Og þess óska ég ekki íslenskri þjóð.