139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:50]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er umræðan að verða býsna fjörleg um einstaka þætti. Ég ætla að blanda mér aðeins í hana og heyra álit hv. þingmanns á sjónarmiði um tilgang þessa frumvarps. Þingmaðurinn kom aðeins inn á það í ræðu sinni að það væri þörf á því að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Ýmsir aðrir hafa komið hér upp og talað um að kannski væri fyrst og fremst þörf á að tryggja eignarhaldið með einum eða öðrum hætti. Við framsóknarmenn börðumst til að mynda lengi vel fyrir því að koma slíku ákvæði inn í stjórnarskrá í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn sem gekk ekki alltaf par vel (BJJ: Nei.) og þar var náttúrlega Sjálfstæðisflokkurinn ekki tilbúinn að vera með á því. Mér hefur heyrst í umræðunni, ekki síður frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins en öðrum, að um það sé orðin nokkur sátt, að allir séu sáttir við þá skilgreiningu. Mig langar að heyra álit þingmannsins á því og þá jafnframt, af því að þingmaðurinn nefndi það í upphafi ræðu sinnar að það væri eðlilegt að taka fiskveiðistjórnarkerfið til endurskoðunar, hvaða aðra þætti þingmaðurinn teldi að hefði átt að skoða.

Við getum síðan verið sammála um að ýmsar þær miðstýringaráráttuleiðir sem koma fram í þessu frumvarpi, ráðherraræði og alls kyns slíkir hlutir, séu leiðir sem við viljum ekki fara. Það væri áhugavert að heyra hvaða þættir það eru sem þingmaðurinn vildi breyta og hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að nú séu allir flokkar, og þar með Sjálfstæðisflokkurinn, orðnir sammála um nauðsyn þess að tryggja þetta með einum eða öðrum hætti þó að það vanti kannski lögformlega skýringu á það hvað sameign þjóðarinnar þýðir.