139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég vil fyrst segja að mér hugnast ekkert sérstaklega þessar hugmyndir um auðlindasjóð eða að það fyrirbæri verði til. Ég get hins vegar tekið undir það að þegar farið verður að tala um skiptingu á veiðigjaldinu er mikilvægt að horfa á það þeim augum að einhver sanngirni sé í skiptingunni. Þjóðin — og það er svolítið óskilgreint hugtak, við skulum bara segja ríkissjóður — þarf vitanlega að fá eitthvað fyrir sinn snúð, það er eðlilegt þegar búið er að ákveða að auðlindin sé leigð út með þessum hætti. Ég er hins vegar ófeiminn við að segja að mér finnst líka mikilvægt að þeir sem reka þessi fyrirtæki njóti líka arðs af greininni, allt þarf þetta að vera í jafnvægi.

Forsendan fyrir því að hægt sé að horfa á sanngjarna skiptingu veiðigjaldsins er sú að nýtingarsamningarnir séu til svo langs tíma að menn geti greitt niður fjárfestingar, að þessi fyrirtæki geti gert framtíðarplön, það held ég að sé mjög mikilvægt. Við hljótum líka að þurfa að velta því fyrir okkur í allri þessari auðlindaumræðu hvort við eigum að horfa á auðlindirnar í heild, sjávarútvegsauðlindina, auðlindir í jörðu og allt það saman, hvort sama reikniformúla á að vera í gildi um þær allar. Ætlum við að beita sömu aðferðum við innheimtu á auðlindagjaldi varðandi jarðhitann til dæmis? Hver er munurinn á þessum greinum?

Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að auðlindagjaldið, hvernig sem það verður útfært, taki mið af stöðu greinarinnar og jafnvel stöðu útgerðarflokka ef því er að skipta. Við megum í það minnsta ekki skattleggja greinina eða fara þannig í hana að hún geti ekki vaxið, geti ekki fjárfest (Forseti hringir.) og geti ekki greitt eigendum sínum einhvern arð.