139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka aðeins upp þráðinn við hv. þingmann um störf sáttanefndarinnar sem hann átti sæti í. Þar átti aðallega að fjalla um tvær leiðir, innköllunarleiðina annars vegar, fyrningarleiðina, og hins vegar svokallaða auðlinda- og samningaleið. Fyrningarleið Samfylkingarinnar var fljótlega flautuð út af þar sem niðurstöður ítarlegra skoðana sem voru framkvæmdar á þeirri leið sýndu fram á að það mundi setja sjávarútveginn í þrot á tiltölulega skömmum tíma.

Ég greip niður í skýrslu sáttanefndarinnar. Meðal annars sagði í markmiðum hennar þegar hún hóf störf að stuðlað skyldi að sem mestri hagkvæmni, óvissu eytt um afkomuhorfur, rekstrarskilyrði, fjárfestingargetu og markaði með afurðir, gætt skyldi að atvinnu- og byggðamálum, eðlileg aðlögun yrði að breyttu fyrirkomulagi í þessum mikilvæga atvinnuvegi, unnið skyldi í sátt við alla aðila og markmiðið yrði að skapa stöðugleika og festu, settar skýrar reglur um réttindi og skyldur. Þetta segir í markmiðssetningu nefndarinnar, að að þessu skuli stefnt með vinnu hennar.

Ég greip síðan niður í bókanir sem sérstaklega fulltrúar stjórnmálaflokkanna og reyndar hagsmunasamtaka líka gerðu við skýrsluna. Í sérstökum bókunum sem fulltrúar stjórnarflokkanna settu inn í hana segir meðal annars að leitað skuli sátta um stjórn fiskveiða meðal þjóðarinnar, að fiskveiðar verði hagkvæmar, skapi verðmæti og störf og séu sjálfbærar, þetta skapi greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ sé á.

Ég spyr þingmanninn: Finnst þér að stjórnarflokkunum hafi tekist að ná þessum markmiðum sem þeir sjálfir settu á blað í skýrslu sáttanefndarinnar þegar vinnu hennar var að ljúka?