139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, stjórnarflokkarnir hafa ekki náð þessu, enda sýnist mér að stjórnarflokkarnir hafi hreinlega gleymt því að þeir voru í þessari sáttanefnd. Í það minnsta er ekki hægt að sjá það á þeim drögum að frumvörpum sem hér hafa verið lögð fram.

Eðlileg aðlögun að breyttu fyrirkomulagi var í markmiðssetningu nefndarinnar. Þau frumvörp sem hér eru lögð fram geta aldrei talist eðlileg aðlögun að breyttu fyrirkomulagi enda er engin sátt um þær breytingar sem hér eru lagðar fram, sem var einnig nefnt í markmiðssetningunni. Nei, stjórnarflokkarnir hafa greinilega einhvers staðar á leiðinni gleymt því sem þeir sjálfir settu á blað og samþykktu fyrir nokkrum mánuðum.

Það kann að vera skýring á því. Eins og kom fram áðan virðist manni sem annar stjórnarflokkurinn í það minnsta sjái sér mikinn hag í því að hafa allt upp í loft um sjávarútveginn, telur sig væntanlega njóta þá góðs af því hjá kjósendum sem hann getur talað til. Það er mjög dapurlegt ef það er þannig.

Ég verð líka að segja að sá fagurgali sem kemur fram í sáttmála þessarar ríkisstjórnar um það hvernig á að meðhöndla sjávarútveginn er heldur á engan hátt innbyggður í þau frumvörp sem hér eru lögð fram þannig að við hljótum að velta fyrir okkur hvað í ósköpunum hafi gerst í þeirri vinnu sem átti sér stað milli stjórnarflokkanna þegar þeir fóru að togast á um málaflokkinn sín á milli fyrir nokkrum mánuðum.

Flokkarnir höfðu átta mánuði til að fjalla um málið (Gripið fram í.) og afraksturinn (Gripið fram í.) er eins og að þetta hafi verið (Forseti hringir.) skrifað á átta mínútum. Það er mjög athyglisvert að ná því fram. (BJJ: Alveg ótrúlegt.)