139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:23]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að hæstv. viðskiptaráðherra skuli vera kominn hingað til að hlýða á þessa umræðu. Við höfum saknað mikið stjórnarþingmanna í henni og það er alveg magnað að við skulum sitja uppi með það í þessari mikilvægu umræðu að úr ráðherraliðinu hefur aðeins sjávarútvegsráðherrann tekið þátt í henni, einn þingmaður til viðbótar við hann úr Vinstri grænum og tveir þingmenn Samfylkingarinnar. Það er nú allt og sumt frá stjórnarflokkunum. Þeir hafa greinilega ekki mikla trú á þessu frumvarpi eða eru sáttir við það eða treysta sér ekki til að ræða það málefnalega hér í þingsal. (Gripið fram í.)

Ég vil segja við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson að mér fannst athyglisverð umræða sem hann átti hér áðan um þau hundruð fjölskyldna sem hafa skuldsett sig við kvótakaup á síðustu árum, stöðu þeirra núna þegar á að fara í aukningu á aflamarki. Það á að bæta í aflaheimildir en það á að skilja þetta fólk eftir með skuldirnar, það á að hirða af því þann rétt sem það var búið að kaupa (Forseti hringir.) og skilja það eftir með skuldirnar. Mig langar að heyra álit þingmannsins á mögulegri lagalegri stöðu (Forseti hringir.) þessa fólks við svona breytingar. Er ekki rétt að ætla að það verði bótaskylda (Forseti hringir.) af hálfu ríkisins gagnvart þessu fólki?