139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:26]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

(Gripið fram í: Forseti er búinn að standa sig vel.) Virðulegi forseti. Já, það vantar ekkert upp á það að hæstv. forseti hefur staðið sig vel við fundarstjórnina en mig langaði til að varpa þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort henni sé kunnugt um það hvort hæstv. fjármálaráðherra sé væntanlegur til umræðunnar.

Ástæðan er sú að í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um þetta frumvarp koma fram efasemdir um að það frumvarp sem við ræðum hér standist stjórnarskrá. Ég hef lýst því að það sé algjört einsdæmi að einn hæstv. ráðherra í ríkisstjórn haldi því fram í greinargerð með stjórnarfrumvarpi að frumvarp annars hæstv. ráðherra í sömu ríkisstjórn standist ekki stjórnarskrá. Ég hefði talið eðlilegt vegna þeirra athugasemda sem hér hafa komið fram við umræðuna að hæstv. fjármálaráðherra tæki þátt í henni, stæði fyrir máli sínu og upplýsti þingið um það hvernig í ósköpunum það gat gerst að þetta frumvarp var heimilað til framlagningar í ríkisstjórn. Og hvernig gat það siglt í gegnum ríkisstjórnarflokkana og þingflokka þeirra (Forseti hringir.) án þess að gerðar yrðu athugasemdir af þessu tilefni? (Forseti hringir.) Það mætti halda að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hefðu ekki lesið frumvarpið áður en það var lagt fram. (Gripið fram í.)