139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu verður það reynt til hlítar og þingmenn Framsóknarflokksins hafa lýst því yfir í þessari umræðu, og ég veit að hv. þingmaður hefur hlustað á það, að við erum reiðubúin til slíks samstarfs. En ég spyr hv. þingmann: Hefði hann ekki talið rétt að stjórnarmeirihlutinn hefði fundað um málið með stjórnarandstöðunni áður en málið var lagt fram og lagt málið líka í dóm þeirra hagsmunaaðila sem hafa sagt að þeir séu alfarið á móti þessu frumvarpi? Hefði ekki umræðan um þær breytingar sem hefðu orðið á því frumvarpi sem þá hefði verið lagt fram verið að mörgu leyti betri en sú sem hér hefur farið fram?

Varðandi ábendingar hv. þingmanns um stefnu Framsóknarflokksins þá er rétt að sumt rímar og margt við það frumvarp sem við ræðum hér en útfærslan er samt með allt öðrum hætti. Tökum pottana sem dæmi. Ríkisstjórnin vill fara í að auka þessa potta strax á meðan við í Framsóknarflokknum höfum talið að stækka ætti þessa potta á (Forseti hringir.) grundvelli aukinna fiskveiðiheimilda. Þar er grundvallarmunur t.d. í útfærslu.