139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:40]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hér virðist vera kominn upp enn einn ágreiningurinn á milli stjórnarflokkanna um þetta mál, því að ég hef skilið hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem svo að reyna eigi að klára málið áður en þing fer heim. Hér segir hv. þm. Magnús Orri Schram að það eigi að vinna þetta inn í sumarið og þar með stangast á fullyrðingar hæstv. ráðherra og hv. þingmanns. Það er enn einn vankanturinn sem einkennir þetta mál, málið er einfaldlega ekki nægilega vel rætt.

Ég velti því fyrir mér og hv. þingmaður getur svarað því á morgun: Hvaða vit er í því að leggja fram mál sem þetta, eins vanbúið og það er, auk þess sem úttekt á efnahagslegri greiningu af áhrifum þess á atvinnugreinina liggur ekki fyrir? Í raun og veru vita menn ekki um hvað þeir eru að tala þegar kemur að efnahagslegu þáttunum og áhrifum þessara frumvarpa á atvinnugreinina í heild. Þetta eru einfaldlega ekki boðleg vinnubrögð, frú forseti.