139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:47]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að hæstv. ráðherra hafi ekki verið að gefa það í skyn að Framsóknarflokkurinn væri að reyna að koma í veg fyrir að málið færi til nefndar. Það hefur ekki komið fram hjá nokkrum einasta þingmanni flokksins við umræðuna, þvert á móti þurfum við að fara yfirvegað yfir þessi mál.

Þegar hæstv. ráðherra segir að það frumvarp sem við ræðum sé í samræmi við stefnu Framsóknarflokksins er það einfaldlega ekki rétt. Hæstv. ráðherra verður greinilega að kynna sér betur þá stefnu sem Framsóknarflokkurinn markaði, til að mynda það hvernig við ætlum að koma að þeim pottum sem kveðið er á um í frumvarpinu. Við viljum gera það á grundvelli kvótaaukningar en ekki á þeim grundvelli sem kveðið er á um í þessu frumvarpi.

Ég vil síðan spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé sáttur við þessi hlutfallslegu skipti, hvernig þau eigi að fara fram, þessa 45:55% reglu er varðar aukningu kvótaheimilda ef þær yrðu að veruleika núna í sumar. Ég held að þau hlutföll séu ekki rétt.