139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:51]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að hv. þm. Birkir Jón Jónsson hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði í ræðu sinni áðan að það sem einkenndi þetta mál væri að hver höndin væri upp á móti annarri í tengslum við það. Hér hefur verið rakið af mér og fleirum, og m.a. hæstv. fjármálaráðherra, að frumvarpið brjóti gegni stjórnarskrá. Hingað hafa komið fulltrúar og hv. þingmenn Samfylkingarinnar og lýst yfir miklum efasemdum og gert mikla fyrirvara við efni frumvarpsins. Það er eðlilegt að hv. þingmaður klóri sér í höfðinu og varpi fram þeirri spurningu af hverju í ósköpunum Samfylkingin afgreiddi málið úr sínum þingflokki. Hann er ekki einn um það.

Ég ætla að reyna að gerast boðberi sannleikans í þessu máli. Ég tel að sannleikurinn sé sá að áhugi Samfylkingarinnar á að málið gangi til nefndar sé sá að þar ætla þeir að taka yfirhöndina. Þar vita þeir að hæstv. ráðherra hefur ekki lengur forræði á málinu og þeir ætla að breyta því eftir því sem Samfylkingin vill í bandalagi við nokkra þingmenn Vinstri grænna (Forseti hringir.) sem eiga sæti í nefndinni en eru kannski ekki helstu stuðningsmenn hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. (Forseti hringir.) Það er það sem býr að baki, hv. þingmaður.