139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:53]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Birki Jóni Jónssyni um að mikilvægt er að reyna að særa fram viðhorf stjórnarliða til málsins. Þeir hafa verið heldur fáliðaðir í þessari umræðu og ekki sagt mikið en þó hafa þeir sem hafa tekið til máls gert athugasemdir og fyrirvara við efni frumvarpsins.

Ég hef ekkert meira fyrir mér í kenningasmíð minni en það sem ég heyri hér á göngum þingsins, en ég skynja mikinn vilja hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar að fá málið til nefndar áður en þeir tjá sig hér til þess að geta gert á því þær breytingar sem þeir vilja að á því séu gerðar. Þær eru eflaust ekki mjög þóknanlegar viðhorfum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég skynja það á viðhorfum hv. þingmanna Samfylkingarinnar að þeir séu þar ekkert á neinni friðarför líkri þeirri sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson (Forseti hringir.) telur að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé á í þessu máli, sem ég get reyndar ekki alveg tekið undir.