139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:55]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Af því að við erum að ræða um Samfylkinguna finnst mér rétt að geta þess að ég vona að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra vakni í fyrramálið í því góða skapi sem hann hefur verið í hér í kvöld og að sá sáttatónn sem hæstv. ráðherra hefur slegið muni endast út morgundaginn.

Mig langar að vekja athygli á einu vegna þess að umræðan er að enda, og hún er búin að vera efnismikil, að stjórnarliðar hafa varla nefnt það að einhverjar tilraunir til málþófs væri um að ræða í þessari umræðu. (Gripið fram í.) Og það vil ég segja þeim til hróss vegna þess að við erum að ræða um undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, gríðarlega mikla hagsmuni sem vegast á. Menn þurfa að vega og meta ólíka hagsmuni. Það er eðlilegt og reyndar málinu til framdráttar að við vegum og metum ólíkar skoðanir og ólíka hluti er snerta þessi mál. Mér finnst þrátt fyrir allt, alla vega á þessu kvöldi, að umræðan hafi verið að þróast á ágætan veg. Ég vona að það muni endast líka á morgun og vonandi verður framhald málsins með þeim hætti að það verði (Forseti hringir.) Alþingi til sóma.