139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[10:48]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mikils virði að ræða þessa skýrslu og fara vel yfir hana því að um er að ræða líklega stærsta verkefnið sem glímt var við í kjölfar bankahrunsins. Hv. þm. Bjarni Benediktsson gerði hér að umtalsefni aðferðafræðina við uppbyggingu hinna nýju banka og virtist gefa sér tvennt; annars vegar að eignarhald ríkisins á öllum bönkunum hefði ekkert kostað ríkið, hann sagði að það væri hvergi hægt að finna því stað að einhver sparnaður hefði verið að því að ríkið legði ekki út fé til að setja á stofn hina nýju banka, og hins vegar að hægt hefði verið að ráða málum fjármálakerfisins til lykta með einhvers konar fullnaðaruppgjöri við kröfuhafa sem ekki hefðu getað haft fram einhverjar frekari kröfur um endurgjald fyrir þær eignir sem þeir áttu. Ég held að báðar forsendurnar séu á veikum grunni reistar. Sú fyrri horfir fram hjá því að það er algerlega ljóst að þurft hefði ríkara eiginfjárframlag í þessa tvo banka til viðbótar ef ríkið hefði kosið að taka yfir eignarhaldið. Menn geta reynt að trúa Morgunblaðinu um að heildarkostnaðurinn við aðgerðirnar eins og þær standa í dag séu rúmir 400 milljarðar. Það skiptir mig svo sem ekki máli hvar menn kjósa að sækja sér leiðsögn lífs síns, en hitt er jafnljóst að kostnaðurinn hefði samt verið einhverjum hundruðum milljörðum meiri ef bankarnir hefðu verið endurfjármagnaðir til fulls. (Gripið fram í.) Þannig verða menn að horfast í augu við staðreyndirnar. Það hefði að líkindum þurft 200 milljarða meira framlag af hálfu ríkisins í þessa tvo banka ef ríkið hefði kosið að eiga þá og vaxtakostnaður af þeirri fjárhæð væru 15 milljarðar á ári.

Við getum líka horft á þá stöðu sem enn er uppi í fjármálakerfinu þar sem við erum að glíma við einingar í eigu ríkisins eða á ábyrgð ríkisins sem eru orðnar helsta hindrunin í meðferð skuldamála og hafa verið á undanförnum mánuðum og missirum. Hvar hafa stoppararnir verið í framgangi skuldamálanna? Við höfum séð það í hinum opinberu stofnunum sem ríkið á fullt í fangi með að endurfjármagna eins og staðan er í dag, í Íbúðalánasjóði, Byggðastofnun, litlum sparisjóðum, þannig að það er ekki eins og maður geti gefið sér að ríkið hefði getað endurfjármagnað heilt fjármálakerfi algerlega án nokkurra útláta fyrir íslenskt samfélag. Þvert á móti er með naumindum að við ráðum við það í dag að endurfjármagna þann hlut sem er á ábyrgð ríkisins þó að við höfum komið af okkur endurfjármögnunarábyrgðinni í tilviki þessara tveggja banka.

Hefði verið hægt, eins og hv. þingmaður Bjarni Benediktsson gefur sér, að ganga frá skiptum við kröfuhafa með einni fjárhæð og ljúka þannig því máli hratt og örugglega og ekki hefði komið til neinna frekari eftirkrafna? Ég held að það hafi verið borin von. Þeim mun meira sem ríkið hefði haft af eignarhaldi í hinum nýju bönkum, þeim mun meiri hefði tortryggni kröfuhafanna verið gagnvart ríkinu. Það hefði þá verið í senn ráðandi á markaðnum, skapað löggjöf um umgjörð skuldamála og jafnframt verið eigandi bankanna. Það er alveg ljóst, enda hafa komið fram margar athugasemdir af hálfu kröfuhafa alveg frá upphafi þegar við komum á regluverki um skipulega lækkun skulda til þess að koma efnahagslífinu aftur af stað. Þá stóðu upp úr kröfuhöfum hótanir um að aðgerðir stjórnvalda stæðust ekki að öllu leyti almennt viðurkenndar aðferðir um meðferð flókinna skuldamála og að ríkið misbeitti valdi sínu sem löggjafi til þess að létta sér eigendahagsmuni í bönkunum.

Sú staða hefði alltaf verið uppi. Það er alveg ljóst að við hefðum alltaf þurft að ljúka málum gagnvart kröfuhöfum þannig að þeir hefðu alla vega látið okkur í friði og í því hefði þurft samninga. Ég held að í öllum tilvikum hefði verið erfitt að standa gegn því að kröfuhafar hefðu getað fengið einhvern ávinning af því ef betur rættist úr horfum um eignir þeirra en gert var ráð fyrir.

Eða er það ekki grundvallarviðmið um framkvæmd eignarnáms að íslenskum rétti að greiða skuli raunvirði fyrir eignir? Ef kröfuhafar hefðu getað haldið því fram með góðum rökum fyrir Hæstarétti að verið væri að verðmeta eignir þeirra niður og gefa sér lélegar endurheimtur lána — þeir hefðu haft af því lögvarða hagsmuni og sterk rök að íslenskum rétti að fá viðurkenna hlutdeild í því sem kynni að innheimtast af þeim.

Ég held að það séu tveir veikleikar í málflutningi hv. þm. Bjarna Benediktssonar sem setji umgjörðina í ræðu hans í nokkuð uppnám.

Varðandi skýrsluna að öðru leyti held ég að það sé alveg ljóst að við stóðum frammi fyrir tveimur stórum kostum; eiginfjármögnun af hálfu ríkisins með tilheyrandi kostnaði og þeim ýmsu göllum sem því fylgja, m.a. því að ríkið væri allt ábyrgt fyrir fjármálakerfinu og þyrfti stöðugt að vera í togstreitu við sjálft sig þegar kæmi að t.d. löggjöf um skuldaniðurfærslu og leiðréttingu skulda vegna þess að ríkið tapaði með annarri hendinni ef það gæfi eitthvað með hinni hendinni í löggjöf sem auðveldaði niðurfærslu skulda. Við sjáum þá togstreitu kristallast í umræðunni í dag um Íbúðalánasjóð og á undanförnum missirum þar sem það er mjög erfitt fyrir ríkið að endurfjármagna sjóðinn til fulls til þess að gera honum kleift að standast þeim snúning sem færa niður kröfur á almennum markaði.

Ég held að það sé líka mikilvægt að ljúka málum í friði gagnvart hinu alþjóðlega umhverfi. Það liggur fyrir að það var mikið horft til þess á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með hvaða hætti Ísland mundi endurreisa fjármálakerfið og hvort það yrði gert í samræmi við alþjóðlega viðurkennd viðmið um aðferðafræði eða ekki. Okkur tókst að gera það þannig. Ég held að það hafi verið virði í því að gera það með þeim hætti að eiginfjárþörfin lenti ekki öll á ríkinu. Eins og ég hef rakið áður á ríkið fullt í fangi með þá takmörkuðu eiginfjárþörf sem það býr við núna þegar allt er tekið saman, varðandi Landsbankann, hinar smærri fjármálastofnanir og aðrar lánastofnanir í eigu ríkisins.

Þá kemur að því sem hefur oft komið fram í umræðunni og hefur gætt nokkurs misskilnings um, að hægt hefði verið, ef menn hefðu bara borið sig saman með einhverjum öðrum hætti, að búa til einhver verðmæti við flutninginn á milli gömlu og nýju bankanna. Ég held að búið sé að ræða það svo í þaula að menn eigi að vera komnir með fast land undir fætur þar, að það hefði aldrei staðist íslenska stjórnskipun að stilla kröfuhöfum upp gagnvart því að eignirnar yrðu færðar á undirverði í einhverja nýja banka og síðan væri ávinningnum af því dreift út til almennings með almennum hætti. Það var hægt og er enn markmið stjórnvalda að tryggja aðlögun skulda að raunvirði, að greiðslugetu. Það er hægt að íslenskum rétti en lengra verður ekki farið út frá grunnviðum íslenskrar stjórnskipunar. (Gripið fram í.)

Fram undan er úrvinnsla skuldamálanna. Þá komum við að þeim þætti þessa máls þar sem við getum horft á hvort að öllu leyti hafi verið gengið eins langt og hægt var og kerfið nógu rétt byggt upp til þess að greiða fyrir skuldaúrvinnslunni. Það held ég að sé hið stóra verkefni efnahagslífsins þessi missirin, skuldaúrvinnsla, sem er auðvitað mjög erfitt við þessar aðstæður í kjölfar algers bankahruns.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson rakti sumar af þeim ástæðum ágætlega áðan. Ein sem hann rakti er vissulega skortur á virku eignarhaldi og því að eignarhaldshagsmunirnir eru ekki nægjanlega skýrir. Það er hluti af vandanum í hvatakerfinu, í fjármálakerfinu. Við þurfum þess vegna að rækja þar það hlutverk sem segja má að sé hlutverk ríkisins sem eiganda til þrautavara, í gegnum regluverkið sem við setjum, og agann sem við reynum að hafa á fjármálakerfinu í gegnum regluverk fjármálamarkaðar. Þegar eigendahagsmunir eru ekki nægjanlega virkir í fjármálakerfinu verður ríkið að koma inn og vinna í þágu almannahagsmuna og þvinga bankana til að vinna þar. Það erum við að gera núna. Við erum að þvinga bankana til þess að hraða skuldaúrvinnslu og ganga þar fram með skipulegri hætti.

Það hefði alltaf verið almennur eigendavandi óháð því hvaða leið hefði verið valin. Ég held að betur hefði mátt búa um hnútana að þessu leyti. Það hefði mátt hafa skýrara hvatakerfi í hinum nýju bönkum til þess að auðvelda skuldaúrvinnsluna. Ég held ekki að hagsmunir kröfuhafanna af skuldaúrvinnslu gangi gegn hagsmunum ríkisins. Ég held að ef horft er á grundvallarviðmið um umbreytingar á skuldastrúktúr banka í kjölfar efnahagskreppu sé það þannig að það hefði átt að fá kröfuhafana til að skrifa upp á þau grundvallarviðmið sem þar hafa verið höfð í heiðri. Ég tel að þess hafi ekki verið nægjanlega vel gætt við aðskilnaðinn milli gömlu og nýju bankanna að greiða fyrir hraðri skuldaúrvinnslu. Það hefði þurft að skapa hvatakerfi sem ríkið hefði styrkt til þess að hraða skuldaúrvinnslu í bönkunum.

Þegar við tökum þetta saman tel ég því að niðurstaðan geti ekki verið önnur en sú að skynsamlegt hafi verið að leita leiða til þess að koma ríkissjóði undan eiginfjárfjármögnun á svona stóru fjármálakerfi. Það hafi verið æskilegt að ráða málum til lykta í eins góðum friði við kröfuhafa og mögulegt var, án þess þó að fórna almannahagsmunum. Það er mikilvægt núna að hraða uppgjörum og koma bönkunum sem fyrst í hendur réttra eigenda. Ég er algerlega sammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni um að það skiptir miklu máli að nauðasamningaferli allra gömlu bankanna hefjist og að þeir komist í hendur réttra eigenda þannig að eðlilegt hvatakerfi byggist upp í fjármálakerfinu. Að við þrengjum kost skilanefnda og komum þeim í skilning um að það sé ekki til þess ætlast af hálfu neinna í þessu landi að skilanefndir reki banka til langframa heldur sé það markmið að þær leggi sjálfa sig niður sem allra fyrst og komi rekstri bankanna í hendur réttra eigenda sem fyrst. Við munum áfram vinna að því að tryggja að skuldaúrvinnslunni verði hraðað. Við heyrum ágætisfyrirheit um árangur á seinni hluta þessa árs, en bankar sem hafa á vissan hátt lítið eigendaaðhald, eins og bankarnir hafa í dag sem er að flestu leyti óumflýjanlegt miðað við uppleggið, þurfa enn frekari aga af hálfu ríkisins, enn meiri aga af hálfu samfélagsins til þess að halda sér við efnið og vinna í þágu almannahagsmuna. Við eigum mikið undir því að endurreisn fjármálakerfisins takist vel og að lækkun skuldastöðu heimila og fyrirtækja verði hraðað eins og kostur er.