139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[11:10]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fjármálaráðherra fyrir hreinskilna skýrslu um endurreisn bankanna. Ég velti þó fyrir mér hvort honum þyki virkilega að endurreisnin hafi farið fram með eðlilegum hætti og á eðlilegum forsendum eða hvort hann skilji hreinlega ekki hvernig sú leið sem hefur verið farin leikur skuldsett heimili og fyrirtæki landsins. Spurningin í mínum huga er hvort um einbeittan brotavilja var að ræða eða stórfellda vangá.

Það er þyngra en tárum taki að íslensk stjórnvöld hafi í einu og öllu ákveðið að taka hagsmuni kröfuhafa fram yfir hagsmuni landsmanna, venjulegra Íslendinga. Hér hefur nefnilega orðið verulegur eignabruni hjá venjulegu fólki. Venjulegt fólk á aldrinum 25–50 ára er upp til hópa tæknilega gjaldþrota. Stjórnvöld hafa beint fólki til dómstóla með mál sín. Þegar hillir í réttlætið þar er leikreglunum breytt með lagasetningu gagngert til að tefja fyrir réttlátri niðurstöðu.

Það má hafa samúð með þeim sem lánuðu íslensku bönkunum fé þótt þeir hefðu átt að vita og vissu í flestum tilvikum hvað þeir voru að gera. En þeir treystu á að íslenska ríkið bakkaði bankana upp. Kröfurnar gengu kaupum og sölum á broti af upprunalegum virði. Þeir sem keyptu kröfurnar voru sem sagt braskarar eða vogunarsjóðir eins og þeir eru kallaðir spari. Að mínu viti er engin sérstök ástæða til þess að taka upp málstað þeirra fremur en venjulegs fólks — venjulegs fólks sem hefur þurft að þola gífurlegan eignabruna og hefur misst alla trú á íslensk stjórnvöld og að réttlæti sé möguleiki á Íslandi.

Við vitum að bankarnir tóku lán heimilanna yfir á gífurlegum afslætti en hafa reynt að innheimta þau að fullu. Markmið hinna endurreistu banka var að hámarka endurheimtur og viðhalda greiðsluvilja. Það þýðir á mannamáli að blóðmjólka fólk þar til það getur ekki meira.

Forseti. Mér finnst í meira lagi varasamt að fullyrða að ríkisstjórn Geirs H. Haarde hafi ætlað að koma fram við heimili og fyrirtæki af sanngirni. Mörg okkar leituðu merkja þess en sáum engin. Sú leið sem hafði verið ráðgerð, þ.e. að bankarnir hefðu verið áfram í eigu ríkisins í einhvern tíma en svo seldir, hefðu þó auðveldað allar aðgerðir til sanngjarnra og réttmætra leiðréttinga á stökkbreyttum skuldum fólks. Hef ég trú á því að ríkisstjórn sjálfstæðismanna og Samfylkingar hefði beitt sér sérstaklega fyrir því? Nei, ég hef nákvæmlega enga sannfæringu fyrir því.

Endurreisn bankanna og það skotleyfi sem stjórnvöld hafa gefið á heimilin er eitt en þegar við horfum á heildarmyndina verður hryllingurinn óbærilegur. Á sama tíma og stjórnvöld gáfu vogunarsjóðum skotleyfi á almenning ákváðu þau að hvetja fólk til að þreyja þorrann með því að taka út viðbótarlífeyrissparnaðinn sinn. Það gerði fólk í örvæntingu sinni til að reyna að standa í skilum og hafa ofan í sig og á. Viðbótarlífeyrissparnaðurinn er það eina sem fólk á almennt sem er ekki aðfararhæft, það eina sem fólk hefði getað átt eftir gjaldþrot. Nú er hann farinn hjá mörgum, horfinn til bankanna og bankarnir eru enn sveimandi yfir fólki eins og hrægammar, tilbúnir að hirða allt um leið og færi gefst. Það mun gefast.

Ráðherra fjármála talaði áðan um eldveggi á milli kröfuhafa og stjórna bankanna. Ég leyfi mér að minna á að slíkir eldveggir voru víða í hinu fallna bankakerfi. Við vitum að þeir voru gagnslausir. Við höfum engar forsendur til að gera ráð fyrir því að þeir nýju haldi betur. Allir sem eru í einhverjum tengslum við íslenskan veruleika vita hversu hart fjármálafyrirtækin ganga gegn heimilum og smærri fyrirtækjum. Eina nothæfa úrræði stjórnvalda virðist vera gjaldþrotaleiðin. Ég ætla rétt að vona að þeir sem hana velji geri það áður en þeir taka út séreignarlífeyrissparnaðinn sinn og eyða honum.

Ég vil minna á að fjármálafyrirtæki eru ekki góðgerðarstofnanir. Þau eru sett á laggirnar til þess að græða peninga, ekki til að hjálpa fólki. Bankarnir eins og þeir eru reknir nú eru gífurlega athyglisverðir og virðast lúta eigin lögmálum sem erfitt getur verið að átta sig á. Sé gluggað í ársskýrslu þeirra má sjá bókfærðan gífurlegan hagnað af rekstri síðasta árs. En bíðum nú við, hvaðan er hann kominn? Verið er að eignfæra lán heimila og fyrirtækja sem færð voru úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju með gríðarlegum afslætti, afslætti sem á ekki að láta ganga áfram til lántakanda sem þó virðist hafa verið ætlunin í upphafi. Afslátturinn á stökkbreyttum lánum heimila hefur verið eignfærður. Samt er stórt hlutfall þessara lána skilgreint af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem óvirk lán eða um 40%. Það eru lán sem ýmist eru í vanskilum eða frystingu og ekki hefur verið greitt af síðustu mánuði. Ljóst er að mörg þessara lána verða aldrei innheimt.

Hagsmunir bankanna í núverandi mynd og heimilanna fara einfaldlega ekki saman. Það er á ábyrgð núverandi stjórnvalda.

Forseti. Ég tek þessu persónulega því mér er málið skylt. Ég er nefnilega venjulegt fólk og venjulegt fólk hefur verið rænt afrakstri ævistarfsins. Ógjörningur er að fyrirgefa slíkt þegar um viljaverk er að ræða. Ég velti fyrir mér hvort sá ráðherra sem ber ábyrgð á því hvernig bankarnir voru endurreistir og færðir í hendur vogunarsjóðina þurfi ekki að svara fyrir það fyrir dómstólum.