139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[11:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Vart þarf að minna á það hér að hrun fjármálakerfisins og efnahagssamdrátturinn sem fylgdi í kjölfarið hefur valdið miklu tjóni. Allir hafa borið skarðan hlut frá borði, þar á meðal íslensk heimili, fyrirtæki, þeir sem áttu fjármuni í bönkunum sem hrundu, innlendir og erlendir fjárfestar og ríkissjóður. Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða til að koma efnahagslífinu í landinu í eðlilegt horf og lágmarka þann skaða sem samfélagið hefur orðið fyrir. Í slíku ástandi og umhverfi sem hrunið skapaði eru engir valkostir við endurreisn svo góðir að með þeim þurrkist slæmar afleiðingar út því að engin töfralausn er til en margir hafa orðið fyrir skaða, sárir út í sjálfa sig og aðra.

Í þannig andrúmslofti er líklegast til vinsælda og einnig ábyrgðarminnst að gagnrýna allt sem stjórnvöld gera. Það er svo auðvelt að hrópa slagorð sem ýta undir tortryggni og vantraust því að jarðvegurinn fyrir slíkt er góður. Margir urðu fyrir fjárhagslegu tjóni og atvinnumissi vegna efnahagshrunsins. Reiði hefur blindað mörgum sýn og komið í veg fyrir að þeir sjái í réttu ljósi hvað áunnist hefur og hverju má búast við í framtíðinni. Reiðin kraumar í mönnum vegna þess að það sem gerðist var óréttlátt og í slíku ástandi er auðvelt að spila á neikvæðar tilfinningar í pólitískum tilgangi og þar liggja þeir sem stóran þátt áttu í hruninu síst á liði sínu.

Umfjöllun um þá skýrslu fjármálaráðherra sem hér er rædd hefur einkennst af slíkum áróðri. Sama taktík er notuð sem virkaði vel í umræðunni um Icesave. Þeirri sem hér stendur þykir það sérlega ámælisvert þegar forustumenn stjórnmálaflokka láta sem skýrslan sé áfellisdómur þegar hún sýnir aðeins það sem vitað var, að endurreisn bankanna kostaði ríkissjóð minna en áætlað hafði verið í fyrstu.

Hv. þm. Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, lék slíkan leik hér áðan í ræðustól og einnig í útvarpsþættinum Í bítið á Bylgjunni þann 26. maí sl. þegar hún túlkaði niðurstöður skýrslunnar og sagði meðal annars, með leyfi forseta:

„… sýnir bara því miður algert getuleysi þessarar ríkisstjórnar til að takast á við þann vanda sem við erum í. Það er það sem kemur fram í þessari skýrslu.“

Þar með var skilaboðum varaformanns Sjálfstæðisflokksins komið til hlustenda sem hún byggir á skýrslu sem sýnir að ágætlega tókst til við endurreisn bankanna og þeir sjá sem hana lesa.

Hæstv. forseti. Eitt brýnasta verkefni sem stjórnvöld stóðu frammi fyrir eftir hrun var endurreisn fjármálakerfisins. Það skipti miklu máli að það yrði gert þannig að sem minnstur skaði yrði fyrir ríkissjóð til viðbótar þeim mikla tekjubresti sem orðið hafði. Eitt af stærstu höggum sem ríkissjóður varð fyrir var vegna tapaðra krafna Seðlabankans á fjármálafyrirtæki sem ríkið þurfti að taka yfir og afskrifa til að koma í veg fyrir gjaldþrot Seðlabankans. Endurfjármögnun banka og sparisjóða, lántökur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fleirum til að stækka gjaldeyrisforðann og hallarekstur ríkissjóðs hafði í för með sér gríðarlega hækkun á vaxtakostnaði ríkissjóðs. Í ár eru það 75 milljarðar kr. eða um 15% af útgjöldum ríkisins sem fara í greiðslu vaxta. Með þetta í huga sjá allir þeir sem sjá vilja að það að mögulegt var að endurreisa bankakerfið með rúmlega 200 milljarða minni kostnaði fyrir ríkissjóð en áætlað var skiptir sköpum fyrir íslensk heimili, þjónustu ríkisins og þá sem þurfa mest á þeirri þjónustu að halda.

Virðulegur forseti. Eins og fram kemur í skýrslu hæstv. fjármálaráðherra námu hlutafjárframlög gömlu bankanna 156 milljörðum kr. og skuldsetning ríkisins þá lægri sem því nemur. Ef ekki hefði náðst samkomulag við kröfuhafana hefði verðmætið verið hærra og þrír ríkisbankar orðið að glíma við hærra eignamat. Slíkt hefði leitt til mjög veikburða bankakerfis sem ekki hefði haft burði til að standa að skuldaaðlögun heimila og fyrirtækja eins og þó hefur verið gert.

Ríkissjóður greiddi hlutafjárframlög sín til bankanna og fjármagnaði víkjandi lán með ríkisskuldabréfum sem afhent voru bönkunum eins og kunnugt er. Upprunalega var gert ráð fyrir að greiðslan færi fram með hefðbundnum ríkisskuldabréfum með föstum vöxtum en þar sem fyrirsjáanlegt var að vextir færu lækkandi mátti því gera ráð fyrir miklum gengishagnaði á skuldabréfunum hjá bönkunum. Því var brugðið á það ráð að stofna nýjan skuldabréfaflokk hjá ríkissjóði, þ.e. skuldabréf með breytilegum vöxtum. Vaxtaviðmið bréfanna var skilgreint sem innlánsvextir Seðlabanka Íslands á hverjum tíma þó að þeir væru frekar háir í byrjun en þeir eru nú 3,25%. Þannig mundi ríkissjóður sjálfur njóta góðs af vaxtalækkuninni.

Lokagjalddagi skuldabréfaflokksins er á árinu 2018 eða á svipuðum tíma og gjalddagi hinna víkjandi lána. Þrátt fyrir að lán bankanna séu veitt með ríkisskuldabréfum í krónum eru skuldabréfin gefin út af bönkunum í evrum til að minnka gjaldeyrismisvægi í efnahagsreikningum þeirra. Vaxtakjör banka eru þriggja mánaða millibankavextir í evrum að viðbættu 4% álagi fyrir fyrstu fimm árin og síðan 5%. Í dag eru þeir grunnvextir 1,43% og greiða því bankarnir miðað við stöðuna í dag 5,43% vexti í evrum af skuldabréfum til ríkissjóðs en fá í staðinn greidda 3,25% vexti í krónum úr ríkissjóði. Ríkissjóður er því með jákvæðan vaxtamun af þessum lánveitingum.

Nú kann að vera að mönnum finnist þetta tæknilegar útskýringar en þetta eru útskýringar sem fram koma í skýrslunni.

Samningar varðandi Landsbankann eru þannig úr garði gerðir að ef til verður skilyrt skuldabréf vegna aukningar eigna mun gamli bankinn afhenda ríkissjóði hlutabréf í sinni eigu í sömu hlutföllum og hið skilyrta hlutabréf verður til. Samkvæmt ársfjórðungsuppgjöri Landsbankans er skilyrta skuldabréfið nú um 30 millj. kr., sem er um 33% af umsaminni hámarksfjárhæð skuldabréfsins, sem er 92 milljarðar. Miðað við þessa stöðu þarf Landsbanki Íslands, þ.e. gamli bankinn, að afhenda ríkissjóði án endurgjalds hlutabréf sem nema um 8 millj. kr. að nafnvirði.

Látið hefur verið í veðri vaka að þetta samningsatriði verði til þess að Landsbankinn þjarmi að viðskiptavinum sínum til að reyna að hækka verðmæti hins skilyrta skuldabréfs. Ekkert er fjarri sannleikanum eins og síðustu aðgerðir Landsbankans bera með sér og eins og fram kemur í skýrslu hæstv. fjármálaráðherra og í máli hans hér fyrr í dag var þess vandlega gætt að hin skilyrta aukning næði aldrei til lána einstaklinga heldur einungis til fyrirtækja þar sem ágreiningur var mikill um rétt verðmat.

Hæstv. forseti. Mikilvægt er fyrir ríkissjóð að farið sé að huga að því að losa um eignarhluti ríkissjóðs í bönkunum og greiða upp ríkisskuldabréfin. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur fjallað um endurreisn íslenska bankakerfisins og hvernig verð eigna var ákvarðað. Þótt erfitt sé að meta virði eigna í miðri kreppu og á árunum fyrst þar á eftir hafa ytri endurskoðendur bankanna eigi að síður undirritað reikninga bankanna og þar með staðfest að þeir telji að matið á virði eignanna hafi verið rétt á þessum tíma.

Í skýrslu starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tengslum við aðra endurskoðun efnahagsáætlunarinnar, sem dagsett er 8. apríl 2010, er fjallað um endurreisn bankanna. Þar kemur fram, á bls. 5, að endurfjármögnun bankanna árið 2009 var fyrir fram talin kosta 20,3% af vergri landsframleiðslu en kostaði í raun, vegna þeirra leiðar sem valin var og lýst er í skýrslu fjármálaráðherra, 12,1% af vergri landsframleiðslu. Munurinn er því 8,2 prósentustig eða 40% lægri upphæð en áætlað var. Í skýrslunni er einnig farið yfir jákvæð áhrif á ríkissjóð vegna þessa og á opinberar skuldir. Þar er einnig flóknu ferli endurreisnar bankanna lýst.

Virðulegi forseti. Frá sjónarhóli ríkisfjármála sýnir skýrslan sem hér er til umræðu að endurreisn viðskiptabankanna þriggja hafi heppnast vel og líklegt, miðað við stöðuna í dag, að ríkissjóður fái framlög sín til baka þegar fram líða stundir með ásættanlegri ávöxtun. Ég hvet alla sem hlusta á orð mín til að kynna sér skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna og bera það sem þar stendur saman við málflutning stjórnarandstöðunnar hér í dag. Þá munu allir sanngjarnir menn sjá af hverju þessi leið var farin í erfiðu máli og að hagur Íslendinga var varinn.

Það er vissulega rétt að bankahrunið kostaði okkur miklar fjárhæðir og hafði í för með sér óréttlátar afleiðingar fyrir heimili og fyrirtæki. Kreppan hefur haft afdrifarík áhrif á hagkerfið allt en ekki síst á atvinnustig og ráðstöfunartekjur heimila. Endurreisn fjármálakerfisins var einnig mjög kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð. Skýrslan sem hér er til umræðu sýnir að valin var skásta leiðin til endurreisnar bankanna eftir langt og flókið ferli. Niðurstaðan dró verulega úr útgjöldum ríkissjóðs miðað við það sem áætlað hafði verið og skiptir það mjög miklu máli á erfiðum tímum.