139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[12:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar sumarið lætur aðeins á sér standa og vorið er kalt er gott að geta komið til Alþingis og fengið tilefni til þess undir sumum ræðum að brosa lítið eitt. Það er ótrúleg hugkvæmni sem við höfum orðið vitni að í morgun hjá formanni Framsóknarflokksins og forustu Sjálfstæðisflokksins að efna til þeirrar umræðu að vandi Íslendinga sé ekki fall bankanna heldur endurreisn þeirra. Með svipuðum hætti er hægt að kíma nokkuð þegar formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, og varaformaður Sjálfstæðisflokksins ganga í ræðustól Alþingis og lýsa því yfir að alþjóðlegir fjárfestar séu hrægammar. Það er ekki orðræða sem við eigum að venjast úr þeirri átt, en eðlilegt að gefa forustu Sjálfstæðisflokksins nokkuð tilfinningalegt svigrúm því að hún hefur auðvitað nýlega orðið illilega undir í eigin flokki, hefur legið undir ámæli fyrir að ganga of langt til móts við einmitt kröfuhafa, og þarf kannski á því að halda að taka undir ræður formanns Framsóknarflokksins og sá tortryggni og efasemdum og ótta í garð útlendinga hvort sem þeir eru kröfuhafar eða á atvinnuleysisskrá í Reykjavík.

Það gefur samt fullt tilefni til þess, þó að forustu Sjálfstæðisflokksins finnist að hún geti með hvaða hætti sem er talað um þessa aðila, að minna á að hvaða skoðanir sem menn kunna að hafa á vogunarsjóðum þá eru kröfuhafar bankanna af ýmsu tagi. Það er ekki þannig að kröfuhafar í gjaldþrota fyrirtæki séu almennt einhverjir aðilar sem eigi ekki að njóta sanngirni, mannréttinda eða annarra slíka hluta heldur einfaldlega aðilar sem lánuðu fjármálafyrirtækjum sem störfuðu í landinu á ábyrgð þeirra stofnana sem hér eru, lánuðu þeim fé og töpuðu því að mestu leyti. Stundum eru þetta lífeyrissjóðir, lífeyrissjóðir fólks sem hefur verið að safna upp alla sína ævi og það hefur nú tapað þeim sparnaði. Þess vegna er algerlega fráleitt að fjalla um þessi mál þannig að hægt sé að svipta þessa aðila réttindum sínum. Auðvitað var það það sem upp á okkur stóð að ganga frá þessum málum með sanngjörnum hætti. Það er grundvallaratriði og sannarlega ætlum við ekki að taka okkur stöðu sjóræningja eins og í Súdan. Ekki lítum við svo á að okkur sé heimilt að gera upptæka farma þeirra skipa sem eiga leið um lögsögu landsins þó að eigendur þeirra skuli vera af ýmsu tagi, nei fjarri því.

Sannarlega var það líka hluti af alþjóðlegum skuldbindingum sem við í Samfylkingunni höfðum gengist undir með Sjálfstæðisflokknum, og með glöðu geði, yfirlýsingar um að við ætluðum að virða grundvallarleikreglur í samskiptum á fjármálamörkuðum. Þess vegna var auðvitað mikilvægt að ná samningum við þá sem í hlut áttu og ekki síst vegna þess að þegar unnið var að þessu var Ísland í gríðarlegri gjaldþrotahættu og mikilvægi þess að endurreisa hratt og vel orðspor Íslands var sem aldrei fyrr. Örfáum mánuðum áður, síðast þegar við vorum í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, var staða málsins sú að enginn vissi með hvaða hætti við ætluðum að fjármagna þetta samfélag og hvort hér yrði til nauðsynlegur gjaldeyrir til að útvega brýnar nauðþurftir á næstu mánuðum. Við vorum að koma út úr algeru neyðarástandi og það verða menn auðvitað líka að hafa í huga.

Ég hélt satt að segja að nokkurt sammæli hefði verið um að það hefði verið snjöll lausn að leysa ágreininginn með því að gera kröfuhafana að hluthöfum í tveimur bankanna, gera þá að haghöfum í samfélaginu í endurreisninni og leysa úr ágreiningnum með þeim hætti að það væri þeirra hagsmunamál að hér gengi allt sem best. Það yrði sameiginlegt hagsmunamál okkar allra. Ég verð að segja að þó að deila megi um ýmislegt í kringum það, og ekki nema sjálfsagt að hafa ýmsar skoðanir á því, þá er sú viðleitni sem hér hefur verið uppi til að hafa mannorðið af hæstv. fjármálaráðherra fyrir að hafa lent þeim málum með þessum hætti vægast sagt ósæmileg og að veifa dómum yfir hæstv. fjármálaráðherra fyrir að reyna á hinum pólitíska vettvangi að leita lausna á málum sem fengu tilstyrk meiri hluta þingheims.

Hér er hins vegar eitt og annað sem full ástæða er til að ræða. Það er ástæða til að ræða það hvað þessi leið kostaði og hvað hin leiðin hefði kostað. Bent hefur verið á að lausafjármögnun eftir þessari leið hafi verið ívið meiri en hefði verið ef við hefðum fjármagnað þetta að fullu með eigin fé. Á móti hefur hæstv. fjármálaráðherra bent á að það sem gerðist við að velja þessa leið á móti var að kröfuhafarnir breyttu 156 milljarða kröfum í eigið fé í íslenska fjármálakerfinu. Auðvitað vegur það þarna á móti.

Sannarlega er ástæða til að fara yfir þessar tölur og skoða hvorn kostinn um sig. En að beitt hafi verið blekkingum eða að um einhver gríðarleg mistök hafi verið að ræða, það hygg ég að sé fjarri öllum sanni. Ég held hins vegar að það sem, og er kannski ekki eitt af því réttmætasta í gagnrýninni, væri þarft að ræða málefnalega í staðinn fyrir þetta pólitíska „jargan“ sem menn hafa haft (Gripið fram í.) hér, ekki síst af hálfu forustu Sjálfstæðisflokksins, er að það hefur tekið allt of langan tíma að koma kröfuhöfunum raunverulega að eignarhaldinu því að það að bankarnir séu í þessari slitameðferð ár eftir ár er sannarlega vandamál og það er ágalli á okkar löggjöf. En það er ekkert sem menn geta hengt hæstv. fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, fyrir. Það er bara vegna þeirrar löggjafar sem hér var í landinu og er á ábyrgð þeirra stjórnmálaflokka sem hér starfa, sennilega miklu meira en Steingríms J. Sigfússonar, dómsmálayfirvalda, slitastjórna og margra annarra. En það er alveg rétt að það er mikilvægt, einmitt til að nýta kostina í þeirri leið sem farin var, að kröfuhafarnir komist sem fyrst að eignarhaldi á hlut sínum í Kaupþingi og Íslandsbanka og hann hætti að vera í þeirri slitameðferð sem hann er og best væri ef þar næðust nauðasamningar.

Hitt gagnrýnisatriðið, sem ég vil taka undir, er ég sannfærður um að verðskuldi málefnalega umræðu en ég held að menn drekki henni í þessum svikabrigslum og í því að reyna að ala á einhvers konar andúð á útlendingum eða lögaðilum sem eru svo óheppnir að eiga kröfur á fyrirtæki sem hér í landinu hafa farið á hausinn og hafa kannski ekkert annað til saka unnið (SKK: … kröfur …) eða lánuðum þeim bara í upphafi. Það er ekki svo, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, að allar kröfur í þessi þrotabú séu bara í höndum einhverra vondra manna sem hafi keypt þau einhvers staðar á markaði, (Gripið fram í: Eigum við ekki bara að …) það er auðvitað ekki þannig (Gripið fram í: Og búið að margselja þær kannski.) og skiptir engu máli hvers eðlis þeir kaupendur eru. Þeir njóta einfaldlega ákveðinna réttinda og þær úrlausnir sem við finnum á málinu verða auðvitað að halda fyrir dómi. Við getum ekki farið um og tekið eignir manna nema gjalda sannarlega fyrir það sanngjarnt og eðlilegt verð. Það hljóta að vera grundvallaratriði réttarríkis sem allir þingmenn í öllum flokkum virða.

Ég held hins vegar að það sýni sig og kannski nú síðast með myndarlegum aðgerðum Landsbanka Íslands að sú gagnrýni sem hefur verið á það hve hægt hafi gengið í skuldaúrvinnslunni, hversu illa svigrúmið þar í bönkunum hafi verið nýtt til aðgerða gagnvart skuldsettu atvinnulífi, gagnvart skuldsettum heimilum, sé gagnrýni sem eigi sannarlega rétt á sér. Það hafi tekið allt of langan tíma, menn hafi ranglega upplýst um svigrúmið. Það sé augljóslega nú, til að mynda í Landsbankanum, tugmilljarða meira svigrúm en menn sögðu. En að fara í umræðu um að við hefðum bara getað tekið það svigrúm eins og einhverjir sjóræningjar og útdeilt því eftir okkar geðþótta er ekki málflutningur sem hægt er að bjóða upp á á þessum vettvangi. Það er miklu flóknara mál því að það þarf líka að koma til móts við þá sem skulda hjá Íbúðalánasjóði. Það þarf líka að koma til móts við venjulegt fólk sem skuldar í lífeyrissjóðunum og það er þannig og óhjákvæmilegt að það muni m.a. bitna á helstu fjármagnseigendum í landinu, sem eru lífeyrissjóðir, því að ekki er hægt að fara þannig með skipan samfélagsmála í landinu að menn ræni einhverja erlenda kröfuhafa og niðurfæri skuldir í nokkrum bönkum en skilji svo alla aðra skuldara í landinu eftir óbætta hjá garði. (Gripið fram í: Það má gera það öfugt.)