139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[12:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna. Ég vil líka í upphafi segja, frú forseti, að sú ræða sem hér var að klárast er með þeim undarlegri sem hafa verið fluttar í dag þar sem hv. þm. Helgi Hjörvar gagnrýnir sjálfan sig væntanlega fyrir að hafa staðið að þeim ákvörðunum sem átti að fara í en var svo hætt við, ákvörðun sem hann kallar að ræna kröfuhafana, ef ég skildi orð hans rétt.

Frú forseti. Ég var mjög undrandi yfir ræðu hæstv. fjármálaráðherra, fannst ræðan bæði ótrúleg og í raun furðuleg verð ég að segja. Hæstv. ráðherra eyddi miklum tíma ræðu sinnar í að varpa ábyrgðinni á Fjármálaeftirlitið, að tala um að það væri Fjármálaeftirlitið sem bæri ábyrgðina á því hvernig staðið hefur verið að endurreisn bankanna en ekki fjármálaráðherrann sjálfur eða fjármálaráðuneytið. Nú veit ég ekki hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í fjármálaráðuneytinu. Ég veit þó að það er ráðherrann sem ber ábyrgðina. Hæstv. fjármálaráðherra ætti að þekkja það þar sem hann dró ekki af sér að koma einum af forverum sínum fyrir landsdóm.

Hæstv. ráðherra ber að sjálfsögðu ábyrgð á þeirri skýrslu sem hér er og þeim fullyrðingum sem í henni eru, það er alveg ljóst. Það kemur fram hvað eftir annað í skýrslunni hver það er sem ber ábyrgð. Ef það er ekki hæstv. fjármálaráðherra einn, þá má bæta við hinni norrænu velferðarstjórn sem gjarnan er talað um, norrænu velferðarstjórninni sem ákvað að stilla upp heimilunum gagnvart kröfuhöfunum og taka hagsmuni kröfuhafanna fram yfir hagsmuni heimilanna. Það er hin norræna velferðarstjórn. Mér þykir leitt að þetta fallega orð, norræna, skuli vera dregið ofan í þetta svað, ég ætla leyfa mér að segja það.

Auðvitað er búið að benda á fjölmargar leiðir til að endurreisa heimilin, til að endurreisa efnahagslífið og til að endurreisa bankana, aðrar leiðir en þessi ríkisstjórn ákvað að fara. En á það var ekki hlustað. Ég vil benda á, frú forseti, að í einni þingnefndinni er m.a. tillaga frá þingmönnum Framsóknarflokksins um efnahagsaðgerðir og atvinnuuppbyggingu, þ.e. tillaga til þingsályktunar um samvinnuráð um þjóðarsátt, en ekkert hefur til hennar spurst síðan hún fór til nefndar.

Frú forseti. Það var fjármálaráðherra sem fékk heimildir til að stofna ný fjármálafyrirtæki og það var fjármálaráðherra sem stofnaði þrjú hlutafélög um innlenda starfsemi bankanna. Það var fjármálaráðuneytið sem leiddi viðræður við kröfuhafana. Það var fjármálaráðherra sem lét ráðgjafa sína meta stöðu bankanna. Þetta allt eru tilvitnanir, frú forseti, í þá skýrslu sem fjármálaráðherra mælti fyrir og flutti okkur þingmönnum.

Það var vinstri stjórnin sem fór í það að einkavæða bankana, selja þá í hendur kröfuhafa, sem ég held að ríkisstjórnin viti ekki í raun hverjir eru, og allt var þetta gert fyrir luktum dyrum og vitnað í skýrslur sem voru í dulkóðuðum herbergjum í fjármálaráðuneytinu því til staðfestingar. En það kemur fram hvað eftir annað í skýrslu hæstv. ráðherra hver hugmyndafræðin er og var í rauninni við þetta allt saman. Ég ætla að leyfa mér að segja, frú forseti, að það er mjög sérkennilegt að sjá á bls. 21 í skýrslunni að það hafi í rauninni verið, ef má lesa þessa skýrslu rétt, vegna þess að eitthvert fyrirtæki, sem heitir Deloitte, hafi talið að snúið væri að fara þá leið sem í upphafi var ætlað að fara, að ákveðið var að fara að semja við þessa kröfuhafa. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Með viðræðum og samningum við Deloitte í lok desember varð hins vegar ljóst að útkoman úr hinu óháða mati yrði verðbil en ekki ein ákveðin tala, enda gekk Deloitte út frá að matið yrði grundvöllur viðræðna en ekki grundvöllur einhliða ákvörðunar.“

Það var sem sagt Deloitte sem gekk út frá því að farið yrði að semja og svo virðist vera sem hæstv. fjármálaráðherra eða fjármálaráðuneytið í það minnsta hafi ákveðið að fara að þeim tillögum eða þeim hugmyndum sem þetta fyrirtæki hafði um hvernig ætti að leysa þetta mál.

Áfram má halda í skýrslunni. Það kemur vitanlega fram að upphaflega markmiðið var að láta afsláttinn af eignasöfnunum ganga til skuldaranna, ganga til þeirra sem skulduðu, heimilanna og fyrirtækjanna. Ætli efnahagsstaða Íslands væri ekki eitthvað örlítið skárri í dag, þó svo að hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra berji sér á brjóst og gumi af því að vel hafi tekist til? Ætli staða heimilanna og fyrirtækjanna væri ekki betri og meiri snúningur í efnahagslífinu og atvinnulífinu ef farin hefði verið upphaflega leiðin, ef klafanum hefði ekki verið velt yfir á heimilin og fyrirtækin?

Staðreyndirnar eru vitanlega þær að neyðarlögin frá 6. október 2008 gerðu ráð fyrir að afsláttur af lánasafninu gengi til skuldaranna. Við þekkjum hvernig átti að gera það. Það átti að gefa út skuldabréf til gömlu bankanna sem væru endanleg greiðsla fyrir yfirtöku lánanna að teknu tilliti til afskrifta. En ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákvað að breyta þessu. Hæstv. fjármálaráðherra ákvað að breyta þessu og taka stöðuna með öðrum hætti. En það vekur athygli okkar, sem hér hefur verið bent á, að á sama tíma og þetta gekk yfir var verið að semja, og voru bresk og hollensk yfirvöld og fulltrúar breskra sveitarfélaga dregnir að því samningaborði, dregnir að því sem kröfuhafar. Hvernig í ósköpunum stóð á því? Var hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin að taka á sig eða viðurkenna eitthvað sem ekki hefur fengist uppgefið? Ég velti því fyrir mér. (Gripið fram í: Viltu ekki tala skýrt?) Hverjir voru kúgarar okkar í Icesave-málinu? Það voru þeir sem hæstv. fjármálaráðherra dró að því borði og vildi semja við. (Gripið fram í: … segðu bara …) Það er bara svoleiðis. Hæstv. fjármálaráðherra verður að viðurkenna það og standa undir því að þarna hófst undirlægjuhátturinn gagnvart Evrópusambandinu og Bretum og Hollendingum. Ég skal alveg segja það skýrt, hæstv. fjármálaráðherra. Það er einfaldlega svo að þarna gafst ríkisstjórnin upp. Þarna lagðist hún flöt, þarna gaf hún eftir og þarna átti að fórna heimilunum og fyrirtækjunum fyrir Evrópusambandið. (Gripið fram í: Hárrétt.) Hæstv. fjármálaráðherra hlær enda veit ég að honum er skemmt yfir þeirri stöðu. Það held ég að hljóti að vera, það er mjög merkilegt. (Gripið fram í.) Ja, sannleikanum er hver sárreiðastur, segi ég nú bara. Hæstv. fjármálaráðherra iðar í sæti sínu yfir því að þetta er dregið fram í dagsljósið. En þetta kemur fram í skýrslunni sem hæstv. ráðherra las upp og er að kynna fyrir Alþingi.

Ég verð að segja, frú forseti, að í ljós hefur komið hvað eftir annað, ekki síst eftir að hæstv. forsætisráðherra sagði að ekki yrði meira gert fyrir heimilin, að það var aldrei ætlun þessarar ríkisstjórnar að koma til móts við heimilin. Ætlunin var aldrei að gera það. Það átti að verja kröfuhafana. Hvers vegna ætli það hafi verið? Jú, það kom fram í hálfkveðnum vísum, held ég að megi orða, í ræðu hv. þm. Helga Hjörvars, það var út af hinu magnaða alþjóðasamfélagi sem ríkisstjórnin vill ekki styggja.

Virðulegi forseti. Ég tel að kominn sé tími á að ríkisstjórn sem hagar sér með þessum hætti íhugi alvarlega sinn gang. Það hlýtur að vera kominn tími á það að hér verði skipt um forustu fyrir landinu. Átakanlegt er að horfa upp á það að fá staðfest að hér erum við að taka hagsmuni erlendra kröfuhafa í flestum tilfellum fram yfir hagsmuni íslenskra heimila og alþýðu og það í nafni norrænnar velferðarstjórnar. Ríkisstjórnin, í það minnsta fjármálaráðherra, hlýtur að segja af sér.