139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[12:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Aðalatriði þessa máls er það að í neyðarlögunum var búið um það í lögum hvernig staðið yrði að verki á grundvelli heimilda Fjármálaeftirlitsins sem fékk þar víðtækar heimildir til að ráðstafa eignum banka sem færu í þrot. Ríkisstjórn hvorki þess tíma né seinni tíma ríkisstjórnir hafa haft slíkar lögheimildir í höndum. Stjórnvöld sem slík hétu því hins vegar, og var svo sem ekki dýrt loforð því að það liggur í hlutarins eðli að þannig yrði það að vera, að vanda sig við þessa aðgerð, gæta þar sanngirni og jafnræðis. Og þannig var, eins og ég rifjaði upp í byrjun umræðunnar, því heitið í fyrstu samstarfsyfirlýsingu Íslendinga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og hana undirrituðu Geir Hilmar Haarde, Árni M. Mathiesen og Davíð Oddsson, að, og aftur með leyfi forseta: „það væri lykilatriði“ — eins og þar segir — „í réttlátri meðferð gagnvart innstæðueigendum og kröfuhöfum á hendur yfirteknu bönkunum að nýju bankarnir greiði sannvirði fyrir þær eignir sem fluttar voru frá gömlu bönkunum“. Nema hvað?

Það er auðvitað alveg yfirgengilegt að hlusta hér á þingmann eftir þingmann koma upp og láta eins og að einhvern veginn öðruvísi hefði verið hægt að standa að þessu. Það er það. Segjum nú að eignirnar sem fluttar voru yfir til nýju bankanna hefðu ekki verið útlánasöfn af ýmsu tagi þar sem ákaflega erfitt var að meta raunverulegt verðmæti, segjum að það hefði verið gull. Segjum að það hefði verið eitt tonn af gulli sem fór úr gamla Landsbankanum … [Frammíköll í þingsal.] (Gripið fram í: Það var ekki gull.) Frú forseti. Segjum að það hefði verið eitt tonn af gulli hefði farið úr gamla Landsbankanum yfir í þann nýja, 600 kg af gulli sem hefðu farið úr Glitni yfir í Íslandsbanka og 500 kg af gulli sem hefðu farið úr Kaupþingi yfir í Arion, halda menn þá, miðað við opinbert heimsmarkaðsverð á gulli, að menn hefðu komist upp með að borga eitthvað annað en það verð fyrir þær eignir eða meta það öðruvísi en þannig? Nei, auðvitað ekki, eðlilega. Enda voru menn búnir að lýsa því yfir, það stóð væntanlega aldrei annað til af hálfu íslenskra stjórnvalda en að reynt yrði að nálgast það eins vel og kostur væri að sannvirði yrði greitt fyrir þær eignir sem þarna færðust á milli. Er það ekki þannig í svona viðskiptum að menn reyni að gera það? Jú, það held ég.

Meira og minna allur málflutningurinn hér hrynur til grunna þegar það er sett í þetta samhengi að það var auðvitað aldrei annað í kortunum í þessari aðgerð en að reyna að nálgast það eins og kostur væri að greiða sannvirði fyrir eignir sem þarna færðust á milli. Það er einfaldlega þannig.

Hv. þingmenn mega taka því eins og þeir vilja þegar vísað er í gildandi lög í landinu um valdmörk og hlutverk. Það var allt og sumt sem ég gerði í tilviki Fjármálaeftirlitsins að ég vísaði í það hlutverk sem því er þar falið með lögum, þau valdmörk sem þar myndast milli sjálfstæðs stjórnvalds eins og Fjármálaeftirlitsins og annarra stjórnvalda.

Nýju bankarnir eru fyrirtæki í rekstri sem skilanefndirnar halda fyrir hönd búsins sem þær gæta. Þegar að því kemur að menn losa eign sína í þessum bönkum mun það gerast með því að þeir verða seldir og nýir eigendur koma að þeim. Og til þess að þeir verði seljanlegir og sæmilegt verð fáist fyrir þá þurfa þeir að vera bankar í góðum rekstri. Þeir þurfa að hafa staðið sig vel, þeir þurfa að hafa komið vel fram við viðskiptavini sína og unnið vel úr þeirra málum.

Í tilviki Landsbankans er um uppgjörsbréf að ræða og það liggur þegar fyrir að Landsbankinn mun greiða talsvert upp í það. Í staðinn fær ríkið til baka eignarhlut skilanefndarinnar í Landsbankanum. Þar kemur á móti verðmætur eignarhlutur í banka sem hefur reyndar vaxið verulega að verðmæti miðað við eigið fé frá því að hann var stofnaður. Ég er sammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni um bæði að það er mikilvægt að nýju bankarnir, þeir sem eru nú í höndum eignarhaldsfélaga á vegum skilanefnda eða slitastjórna, komist sem fyrst í hendur framtíðareigenda. Það er mikilvægt. Hverjir það gætu orðið, lífeyrissjóðir, aðrir bankar, norrænir bankar, skal ósagt látið en eitthvað af því tagi væri tvímælalaust jákvæð þróun.

Ég er sömuleiðis mjög sammála því að það væri mjög góð aðgerð, svo við beinum sjónum aðeins fram á veginn, það væri auðvitað mjög gott að það ynnist hratt úr málefnum búanna í gegnum eftir atvikum nauðasamninga og þar liggja fordæmi fyrir þar sem ég sé ekki annað en að vel hafi tekist til t.d. í tilviki Straums, þannig að þeir yrðu aftur eining sem ekki væri bú í skiptum heldur fjárhagslega endurskipulögð eining og málin kláruð. Það mundi m.a. væntanlega hafa það í för með sér, sem væri ákaflega gott, að í slíkum fjárhagslegum endurskipulagningarsamningum er langlíklegast að minni kröfuhafar eða óverulegir kröfuhafar yrðu borgaðir út úr búunum að fullu. Í því væru fólgnir hagsmunir stóru kröfuhafanna, sem eru bankar og sjóðir og ýmsir aðilar, lífeyrissjóðir íslenskir o.s.frv., að einfalda málin með því að fækka þeim sem ættu atkvæðisrétt á fundum o.s.frv. Það gæti orðið aðgerð sem kæmi verulega til móts við mjög marga litla íslenska kröfuhafa sem enn eiga hagsmuna að gæta í þessum búum. Þetta væri t.d. jákvæð þróun.

Frú forseti. Ég ætla að leiða algerlega hjá mér að svara stóryrðum og dylgjum nokkurra þingmanna. Ég tel það ekki svara vert. Það er ekki flugufótur fyrir þeim áburði, ásökunum og dylgjum sem hv. þingmenn Margrét Tryggvadóttir, Lilja Mósesdóttir og Þór Saari, sérstaklega, hafa beint hér að mér. Ég held ég verði að fá að nefna þau þrjú saman í ákveðnum sérflokki hvað þetta varðar. Það er að sjálfsögðu ekki þannig að menn hafi ekki í þessu ferli reynt að gera sitt besta til að vinna þetta samkvæmt viðurkenndum leikreglum sem stæðust og héldu og þar sem (Gripið fram í.) sanngirni væri gætt á báða bóga.

Varðandi þessa skýrslu, sem sumir þingmenn lesa út úr alveg óskaplegan áfellisdóm yfir þeim sem hér stendur og guð má vita hvað — ég yrði þá varla sakaður um að hafa verið að hlífa sjálfum mér, er það, ef þetta stæði allt saman í skýrslunni, ef hún væri gagn til rökstuðnings svona málflutningi? En það er hún auðvitað ekki, að sjálfsögðu ekki. Hún er fyrst og fremst greinargóð og raunsönn lýsing á þessu ferli frá upphafi til enda þar sem útskýrt er skref fyrir skref hvers vegna málin þróuðust eins og þau þróuðust. Allt tal um pólitíska stefnubreytingu er á misskilningi byggt eins og ég hef rækilega útskýrt og rökstutt, allt tal um það. Það lá fyrir þegar í desember 2008 og í byrjun janúar 2009 að niðurstaða Deloitte-matsins yrði eins og hún varð, verðbil, það lá fyrir og þá þegar var undirbúningur hafinn að því og það yrði að takast á við niðurstöðuna í því ljósi. Það liggur algerlega skýrt fyrir.

Hér hefur rækilega verið útskýrt hvernig fjárhagslegar stærðir í þessu eru og að niðurstaðan varð sannanlega mjög hagstæð fyrir íslenska ríkið borið saman við það sem í byrjun leit út fyrir að vera. Hv. þingmenn verða að átta sig á því hvað þeir eru að lesa upp og hvað þeir eru að vitna í, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson þegar hann tekur samtöluna af hlutafjárframlögum og víkjandi lánafyrirgreiðslum til endurreisnar bankanna og inni í því er framlag skilanefnda og notar það sem rök fyrir því að ríkið hafi ekki sloppið betur frá þessu. Svona einfalt er ekki hægt að hafa þetta. Að sjálfsögðu er í skýrslunni verið að tala þarna um samtöluna sem fór í … (GÞÞ: Ég las þetta úr …) Já, ég er að útskýra það að þú misskilur í grundvallaratriðum … (GÞÞ: Ég las orðrétt úr skýrslunni.) Já, og hvað er verið að segja þar? Það er verið að tala um samtölukostnað við að endurreisa þessa þrjá viðskiptabanka (GÞÞ: Af hverju …?) og þar af komu 156 milljarðar frá kröfuhöfum. Hv. þingmaður misskildi þetta algerlega.

(Forseti (SF): Forseti biður þingmenn að vera ekki með samtöl hér, og það á líka að ávarpa hv. þingmenn með nafni.)

Ég biðst velvirðingar, frú forseti. Varðandi það sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði þá er það rétt að Framsóknarflokkurinn lagði þarna fram tillögur og þar á meðal var sú hugmynd reifuð hvort hægt væri að hafa efnahagsreikning nýju bankanna minni. Það var skoðað en niðurstaðan varð sú að það væri ekki hægt að snúa við þegar komið var jafnlangt inn í ferlið og raun bar vitni vegna þess að búið var að aðgreina eignirnar sem urðu eftir í gömlu bönkunum og þær sem fluttar voru yfir í nýju bankana og leiðin til baka var ekki fær. Efnahagsreikningur nýju bankanna, ef við tökum hann í þjóðhagslegu samhengi, er ekki í sjálfu sér of stór. Þegar menn tala um að bankakerfið sé of stórt eiga menn fyrst og fremst við það að yfirbygging þess, útibú og (Forseti hringir.) mannahald í bili, er auðvitað mikið miðað við stærð okkar hagkerfis. Því er ég sammála að sjálfsögðu en í grófum dráttum er efnahagsreikningur a.m.k. þessara (Forseti hringir.) þriggja viðskiptabanka ekki stór miðað við stærð íslenska hagkerfisins.