139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[13:16]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú eiginlega að byrja andsvar mitt á því að víkja aðeins að því sem fór fram í fyrra andsvari. Formaður Sjálfstæðisflokksins viðurkenndi að kröfuhafar ættu að fá sannvirði eigna sinna. (Gripið fram í: Nema hvað.) Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði svo að kröfuhafar fengju sannvirðið í endurmatinu plús auknar endurheimtur til framtíðar. Hvernig má það vera? Það er alveg ljóst að gefinn var afsláttur frá upphaflegri lánsupphæð. Menn fóru niður fyrir neðra matið á stöðu mála. Og svo eru menn að gefa kröfuhöfunum (Gripið fram í.) möguleika á hlutdeild ef endurreikningarnir verða betri en lægsta matið. (Gripið fram í.) Þannig eru menn að reyna að fá hlutdeild í sannvirðinu. Smátt og smátt er verið að gefa kröfuhöfum gegnum þessa samninga hlutdeild í sannvirðinu til lengri tíma litið. (Gripið fram í.) Það er lykilatriðið í þessum samningum sem við erum hér að ræða. Þess vegna er ótrúlegt að menn segi hér í öðru orðinu að þeir vilji að kröfuhafarnir fái sannvirði eigna sinna en hlaupi svo í skjól í hinu orðinu og séu á stöðugum flótta undan því sem skiptir máli. Mönnum hefur ekki tekist að benda í þessari umræðu á annan valkost. (Gripið fram í.) Valið sem við stóðum frammi fyrir var þetta: Eigum við að kaupa einn banka eða eigum við að kaupa þrjá banka? (Gripið fram í.) Ef við kaupum einn banka kostar það okkur 135 milljarða (Gripið fram í.) — ég er bara að beina orðum mínum til þín, hv. þm. Bjarni Benediktsson, vegna þess að það var farið með ótrúlegan málflutning í rökstuðningi Sjálfstæðisflokksins í umræðunni í dag. Mér þótti skylda mín að benda á þennan veikleika vegna þess að hér tala menn hver í sína áttina.

Það er ágætt að hæstv. fjármálaráðherra getur komið og brugðið ljósi sínu á þá umræðu sem hér hefur farið fram vegna þess að fjármálaráðherra hafði um tvennt að velja, að kaupa einn banka eða þrjá. Það munaði 250 milljörðum í fjárframlagi fyrir hönd ríkissjóðs. Það hefði kostað okkur tæplega 50 milljarða í vaxtakostnað árin 2009 og 2010. (BjarnB: En … á móti?) (Gripið fram í: Ráðherrann …)