139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[13:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Höldum okkur aðeins við hina gagnlegu samlíkingu hæstv. fjármálaráðherra við gullið. Hæstv. ráðherra segir að ef þessir gjaldþrota bankar hefðu átt gull hefði ekki verið hægt að færa það yfir í nýju bankana nema að huga að heimsmarkaðsverði gulls. Eignir bankanna voru náttúrlega ekki gull en hins vegar var til heimsmarkaðsverð á eignum þessara banka. Skuldabréf á þessa banka gengu kaupum og sölum á heimsmarkaði á 1–5% af nafnverði sem sýndi hvaða mat menn lögðu á verðmæti þessara þrotabúa, þar með verðmæti eignasafna bankanna. Þar af leiðandi var fullkomlega réttlætanlegt fyrir ríkisstjórnina sem á þessum tíma stýrði bönkunum að færa eignir yfir á hrakvirði, fyrir mjög lága upphæð og láta eitthvað af þeirri upphæð ganga áfram. Það er ekki hægt að halda því fram að með því hefðu menn á einhvern hátt verið að svína á kröfuhöfunum, þvert á móti hefðu þeir fengið sitt heimsmarkaðsverð.

Hins vegar hefur hæstv. fjármálaráðherra lýst því yfir að hann og fleiri hafi talið rétt að vera ekki að storka mönnum um of, viljað koma til móts við þessa kröfuhafa, þessa vogunarsjóði og hverjir það nú voru, m.a. til að forðast málaferli, en forðuðust ekkert málaferli með þessu. Kannski var það til þess að koma á starfhæfu bankakerfi sem væri svo mikilvægt eins og hæstv. fjármálaráðherra lýsti í andsvari áðan. Er komið á almennilega starfhæft bankakerfi á Íslandi tveimur og hálfu ári eftir efnahagshrunið? Eru bankarnir farnir að starfa sem skyldi? Eða eru skuldamál heimila og fyrirtækja enn þá algjörlega óleyst og liggja eins og farg ofan á íslensku efnahagslífi? Hefði ekki verið ráð að nota tækifærið sem gafst á meðan þessi eignasöfn voru lágt metin á heimsmarkaðsverði og láta íslenskan almenning og fyrirtæki njóta góðs af því, góðs sem (Forseti hringir.) þau áttu inni vegna þeirra áhrifa sem efnahagskrísan hafði valdið?