139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[13:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrra lagi held ég að það sé ákaflega fjarlægt að menn hefðu nokkurn tímann getað tekið sem einhverja raunhæfa viðmiðun algerlega spekúlatífan markað sem byrjar að myndast á dögunum eftir hrun bankanna þar sem almennar kröfur ganga kaupum og sölum og menn eru að veðja á að hugsanlega innheimtist eitthvað eða kannski svo og svo mikið upp í almennar kröfur. (Gripið fram í.) Þegar búið verði að sortera allar kröfur í bankana og samþykkja forgangskröfur komi eftir dúk og disk í ljós hvað verður viðurkennt af almennum kröfum og hvað fæst upp í þær. Svo er auðvitað óvissan hinum megin um hvernig vinnst úr eignasafninu. Þótt þetta sé skemmtileg kenning held ég að við sjáum öll í hendi okkar að hún gengur ekki upp og er algerlega fjarstæðukennd, að þetta sé einhver viðmiðun um raunvirði eða sannvirði eignanna sem færðust þarna yfir. Um það snýst þetta, að verðleggja þær og finna út einhverjar aðferðir til þess, annaðhvort með beinum hætti eða uppgjörshætti eins og hér varð niðurstaðan.

Ég hef ekki skipt um skoðun á vogunarsjóðum eða hrægammasjóðum sem ég hef kannski orðið einna fyrstur manna til að skrifa um á Íslandi, m.a. vegna þess að ég stúderaði á þessum árum framferði nokkurra þeirra í Afríku. Hvað voru þeir að gera og í hvað er ég að vitna í þarna í grein minni um þá fyrir mörgum árum? Ég er að upplýsa það sem ég var að skoða bæði í gegnum Norðurlandaráð og seinna Evrópuráðið á þeim vettvangi ásamt fleirum, að þeir keyptu upp kröfur á skuldugustu og fátækustu ríki heimsins, HIPC-ríkin, og reyndu að þvinga þessi ríki til að endurgreiða þær að fullu þrátt fyrir niðurfellinguna (Gripið fram í.) sem lánardrottnarnir voru búnir að veita þeim. (Gripið fram í.) Þetta voru mjög illræmdir aðilar og að sjálfsögðu er svona framferði hneykslanlegt. Þetta á bara ekkert erindi inn í þessa umræðu, ekki nokkurn skapaðan hlut. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Þetta er svo gjörsamlega fráleitur samanburður sem nokkuð getur verið sem hv. þingmenn eru hér með uppi. (Gripið fram í.)