139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.

694. mál
[13:33]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að andmæla þeirri skoðun hæstv. fjármálaráðherra að hv. þrír þingmenn, Lilja Mósesdóttir, Margrét Tryggvadóttir og ég sem hér tala, hafi verið með einhverjar ávirðingar í hans garð um að hann eigi að sæta ábyrgð fyrir þar til bærum dómstólum. Það er ekki við hæfi að ráðherrann tali svona til fólks sem hefur engin tök á að koma hingað og svara til baka, það er illa gert.

Svo hæstv. ráðherra viti það kom í ljós í samtali mínu við hæstv. forseta Alþingis áðan að það kom aldrei til greina að þessi skýrsla fengi þá umræðu sem kveðið er á um í þingsköpum. Það kom aldrei til greina að þingmenn fengju að tjá sig hér með þeim hætti sem kveðið er á um í þingsköpum, heldur var það krafa af hálfu fjármálaráðherra og forseta Alþingis að umræðan um skýrsluna yrði skert. Þess vegna komast ekki öll málefnaleg rök til skila með þeim hætti sem þau eiga að gera. Þess vegna nota menn stóru orðin til að það sé öruggt að eitthvað komist til skila.

Mig langar að beina þremur spurningum til hæstv. ráðherra í mínu fyrra andsvari. Á bls. 23, í kafla 2.4.2. um breytta endurreisnaráætlun, er talað um að sett hafi verið á fót þriggja manna stýrinefnd til að semja við kröfuhafa. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hverjir voru í þessari stýrinefnd? Hvert var nákvæmlega „mandat“ hennar og hvers vegna var ekki reynt að gæta hagsmuna lántakenda, þ.e. íslenskra heimila og fyrirtækja, þegar það hefur komið í ljós að kröfurnar gengu hér kaupum og sölum á 6–10%? Jafnframt var þeim í framhaldinu gefið skotleyfi á almenning til að innheimta þær að fullu, miklu meira en upp að einhverju ákveðnu lágmarksbili, eins og hv. þm. Magnús Orri Schram hélt fram áðan. Það var einfaldlega rangt hjá honum.

Ég bið hæstv. ráðherra vinsamlegast að svara þessum spurningum.