139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

fundarstjórn.

[15:11]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Ég held að það sé einmitt mjög brýnt að við ræðum í þessum sölum að hér eru í ríkisstjórn tveir flokkar, annar á móti því að vera í NATO og hefur lagt fram tillögu þess efnis á Alþingi, hinn hefur allt aðra stefnu. Það þarf eiginlega að útskýra fyrir Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hvað það þýðir að vera í ríkisstjórn.

Þegar ákvörðun var tekin með NATO í fyrra skiptið sagði Vinstri hreyfingin – grænt framboð að hún hefði ekki verið spurð álits. Í gær var alveg vitað hvað yrði gert og þá bókuðu fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hluti í utanríkismálanefnd, en nota engu að síður ekki það tækifæri sem þau hafa til að framfylgja stefnu sinni. Stefna Vinstri grænna í utanríkismálum er þá eitthvert innanflokksmál, eitthvað sem þau nota bara hérna heima, hefur ekkert að gera með stjórn landsins og þau eru greinilega ekki aðilar að utanríkismálastefnu þessarar ríkisstjórnar í raunveruleikanum. Það er mjög sérkennileg staða, virðulegi forseti, og það er ekki hægt að komast hjá því að það sé rætt ítarlega í þinginu.