139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil yfirlýsingar þingmanna Samfylkingarinnar á þann veg að þeir séu tilbúnir að taka upp stefnu Framsóknarflokksins inn í frumvörpin og við erum auðvitað meira og minna til reiðu til þess. Það mundi þá bjarga þessum frumvörpum frá því að verða hent í ruslið eins og þau líta út í dag og tryggja rekstrargrundvöll greinarinnar.

Hv. þingmaður nefndi aðeins umfjöllun um veiðigjald. Það til að mynda er í stefnu okkar framsóknarmanna að því verði úthlutað til þriggja þátta: Í fyrsta lagi til landshlutanna, hugsanlega gegnum atvinnuþróunarfélög, í öðru lagi beint til greinarinnar til rannsókna, nýsköpunar og markaðs og í þriðja lagi til ríkisins.

Ég hef heyrt hv. þingmann tala í andsvörum fyrr í umræðunni um að jafnræði sé brotið og benda m.a. á álit fjármálaráðuneytisins og ýmissa annarra. Í þjóðlendulögunum er talað um að þær tekjur sem verða til í ákveðinni þjóðlendu eigi að falla til viðkomandi þjóðlendu til reksturs og uppbyggingar. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort ekki sé hægt að skilgreina landshluta þar sem auðlindin er og tekjurnar verða til og hvort ekki sé þá eðlilegt að hluti af þeim tekjum (Forseti hringir.) falli til viðkomandi landsvæðis vegna auðlindarinnar sem þar er.