139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég treysti því að ég þurfi ekki að flytja breytingartillögur um þessi efni, nefndin hlýtur að gera það í heild sinni, jafnaugljós og -sjálfsögð réttlætis- og úrbótaatriði sem þetta eru. Ég held þó að meginatriðið sé að almenningur á Íslandi njóti eðlilegs endurgjalds af auðlindinni og njóti þess sérstaklega þegar þar er mjög góð afkoma. Þegar mjög góð afkoma er í greininni er það yfirleitt vegna þess að gengi krónunnar er mjög veikt. Lífskjör í samfélaginu almennt eru slök og almenningur í litlum færum til að bera byrðar. Ég held að það sé eðlilegt að kalla eftir því að byrðar fólks og fyrirtækja í landinu séu léttar nokkuð með því að fá eðlilega hlutdeild í þessum arði. Ég held að hluti af því að skapa sátt um það sé um leið að það komi líka eðlileg auðlindagjöld fyrir hitaveituauðlindir okkar hér á suðvesturhorninu, fyrir vatnsaflsauðlindir okkar um land allt og aðrar auðlindir (Forseti hringir.) því að við eigum þær allar saman og engir hópar landsmanna meira en aðrir.